Skólastarfið
Fjölbreytt og skemmtileg vika er á enda.
Á þriðjudaginn fengum við heimsókn frá kennurum frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Sú heimsókn er liður í Nordplus verkefni sem skólinn tekur þátt í. https://gron.isafjordur.is/skolinn/nordplus/
Þeir skoðuðu skólann og aðstæður til náms og kennslu bæði innan og utan dyra. Síðan var farið í göngutúr um bæinn þar sem gestirnir fræddust um ýmislegt tengt Flateyri. Þetta var frábær upplifun fyrir nemendur og kennara að fá að deila sínum venjum og umhverfi með erlendum gestum.
Sérstaka athygli vakti hjólabrautin sem þeir Kristján og Kamil hafa verið að hanna og búa til. Heilmikil vinna sem þeir hafa lagt í þetta verkefni og hvet ég alla til að gera sér ferð á hjólinu sínu, en brautin er staðsett fyrir neðan varnargarðinn bakvið Goðahól. Nemendur fá einnig tækifæri til að lagfæra og ditta að hjólunum sínum og var það eitt af verkefnum vikunnar.
Nemendum á yngsta stigi var boðið á sögulestur í leikskólanum í morgun, þar las Elfar Logi bókina sína: Matti litli - Sagan af drengnum með breiða nefið.
Nemendur á yngsta stigi unnu að sameiginlegri sögugerð í vikunni í samstarfi við nemendur á Suðureyri og Þingeyri. Á mið- og unglingastigi hefur handritagerð verið í fullum gangi í tengslum við hrekkjavökuþemað. Skemmtilegir hlutir eru að gerast í þessu verkefni, og við hlökkum til að sjá útkomuna.
Skólavinir - vinaliðaverkefni
Hérna í skólanum höfum við sett á fót verkefni sem við köllum Skólavinir. Fyrirmynd þessa verkefnis er frá verkefni sem heitir Vinaliðar en verkefnið hefur það að markmiði að stuðla að jákvæðri afþreyingu í frímínútum. https://gron.isafjordur.is/skolinn/skolavinir/
Góða helgi til ykkar