VALMYND ×

Desemberpóstur

Sæl öll

 

Nú er lítið eftir af þessu ári og jólafríið á næsta leiti.

 

Við höfum átt frábæra viku sem byrjaði á því að við fórum út í skóg og sóttum okkur jólatré. Við áttum notalega stund og fengum kakó og smákökur. Jólatréð stendur nú upplýst við skautasvellið og mun gleðja okkur yfir jól og áramót. Verður yndislegt að koma og skauta yfir hátíðarnar.

Við höfum brasað ýmislegt í desember og fengið til okkar góða gesti.

Lýðskólinn var með sína árlegu samfélagsviku og erum við svo heppinn að vera partur af henni. Nemendur Lýðskólans komu til okkar og voru með jólaföndur og daginn eftir var piparkökubakstur á Gunnukaffi. Notalegar stundir og ómetanlegar minningar.

Við fórum á Bryggjukaffi og fengum okkur heitt kakó með rjóma. Alltaf mikil gleði að koma og hitta Sunnu "skólastjóra". Notaleg stund með spilum og jólakósý. 

Jólakortagerð er fastu liður í desember og að þessu sinni skrifuðu nemendur jólakort til nokkurra einstaklinga á Flateyri sem við síðan bárum í hús. Yndislegt að labba eyrina og sjá öll fallegu jólaljósin. 

Nemendur bjuggu til sín eigin piparkökuhús og sýndu nemendur mikinn metnað, þolinmæði og gleði við sína vinnu. Þau hönnuðu sín eigin hús sem þau áttu að mæla, teikna upp og búa til skapalón.

Í dag voru nemendur á mið- og elsta stigi með kynningu og stóðu sig mjög vel. Verkefnið fékk titilinn ég læri-ég kenni og áttu nemendiur að velja sér viðfangsefni innan kafla er varðar hlýnun jarðar. Eftir kynninguna voru nemendur með jafningjamat. Þau vönduðu sig mikið og tóku verkefninu alvarlega.

Á morgun eru svo litlu jólin sem við ætlum að njóta með leikskólanum og endum við í jólamat á Gunnukaffi.

Kennsla hefst að nýju mánudaginn 6. janúar klukkan 08:10.

 

Með þessum jólapósti óskum við ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.