VALMYND ×

Lestur, leikgleði og lestrarhvetjandi umhverfi

1 af 12

Ég hef sett mér það markmið að kynna betur það góða starf sem á sér stað í skólanum okkar. 

Jákvæð kynning á skólastarfi eflir stoltið, styrkir ímynd skólans og eykur þátttöku samfélagsins. Hún byggir upp sjálfstraust nemenda og kennara og hvetur til nýsköpunar og þróunar í starfi.

Kynning á skólastarfinu #1

Í Grunnskóla Önundarfjarðar leggjum við mikla áherslu á að skapa umhverfi sem hvetur til lesturs. Eitt af því sem hefur aukið lestrargleði hjá okkar nemendum er lestrarátakið okkar góða sem hefur gengið mjög vel og erum við afar stolt af því framtaki. Heimalestrarormurinn lengist stöðugt og nemendur almennt kappsamir við að klára bingóspjöldin sín innan vikunnar. Það er frábært að fylgjast með framförum hjá nemendunum og einnig hvað samstarfið við foreldra gengur vel þegar kemur að heimalestrinum.

Þegar þú kemur í heimsókn í Grunnskóla Önundarfjarðar sérðu m.a.:

Sýnilegar bækur – Bækur eru alls staðar í skólanum, ekki bara á bókasafninu! Nemendur hafa frjálsan aðgang að fjölbreyttu úrvali bóka í skólastofum, göngum og lestrarkrókum. Einu sinni í mánuði eru sóttar nýjar bækur á bókasafnið á Ísafirði til að hafa sem fjölbreyttast úrval bóka.

Notaleg lestrarrými – Við höfum útbúið þægileg rými með sófum, púðum og góðri lýsingu þar sem börnin geta lesið í ró og næði. Hús úr pappakössum og vasaljós eru líka vinsæl.

Lestur í öllum fögum – Lestur er ekki bara í íslenskutímunum! Við lesum í stærðfræði, náttúrufræði, ensku, dönsku  og um allan skólann.

Leikgleði - Við leggjum áherslu á skapandi leik sem stuðlar að félagsþroska, sjálfstrausti og vellíðan nemenda. Nemendur hafa m.a. greiðan aðgang að kubbum, búningum, perlum, búðardóti o.fl.

Þetta er ekki tæmandi listi en myndir segja meira en þúsund orð og svo eru þið velkomin í heimsókn :)