VALMYND ×

Púkafrétt,

Unnið við að setja texta við viðtal
Unnið við að setja texta við viðtal
1 af 2

Púkafrétt

 

Barnamenningarhátíð Vestfjarða Púkinn stendur nú yfir. Við í Grunnskóla Önundarfjarðar erum búin að taka viðtöl við Flateyringa og einn bónda í Önundarfirði til að leita að svari við spurningunni ,,Hvers vegna búum við hér“ sem er yfirskrift Púkans að þessu sinni. Við byrjuðum á því að taka ákvörðun um hvernig verkefni við vildum vinna í vikunni. Niðurstaðan var að gera myndband með viðtölum. Síðan sömdum við spurningarnar sem við vildum fá svör við. Við reyndum að finna ólíka viðmælendur, úr Grunnskóla Önundarfjarðar, úr Lýðskólanum, úr fjölskyldum okkar og aðra úr samfélaginu okkar.

Nemendur lærðu ýmislegt nýtt. Til dæmis að beina myndavélinni að þeim sem var að tala. Þau lærðu einnig á forritið cap cut sem er til að klippa myndbönd. Þau tóku upp á mörg tæki og þurftu svo að senda og safna á eitt tæki. Það þurfti mikla þolinmæði við að setja texta við öll viðtölin. Mesta áskorunin var að æfa sig að tala við fólk úr samfélaginu. Sum nefndu að það hafi verið dálítið erfitt að hafa úthald til að einbeita sér að verkefninu. Nemendur höfðu gaman að verkefninu og stóð þar upp úr að semja spurningarnar, taka viðtölin og þegar þau fengu einn viðmælandann til að leita að símanúmerum fyrir sig.

Það er ýmislegt gott við að búa á Flateyri og í Önundarfirði og sennilega erum við hér þess vegna. Þorpið er lítið. Hér eru engar biðraðir. Hér finnum við fyrir öryggi. Hér erum við nálægt náttúrunni, stutt í fjöruna og skóginn. Klofningur er merkilegur klettur og Holtsfjaran er æði. Það er hægt að labba ofan á A-inu. Hér höfum við leikskóla, grunnskóla og lýðskóla. Það er stutt í næstu bæjarkjarna. Við höfum frisbígolfvöll, körfuboltavöll, sparkvöll, leikvöll, ærslabelg, hjólabraut, skautasvell, sundlaug, íþróttahús, verslun, kaffihús, veitingastaði, skrifstofuhótel og bensínstöð. Hér höfum við líka skemmtilegt fólk og gæludýr.

Og svo er G.Ö. langbesti skólinn.

Púkakveðja frá nemendum Grunnskóla Önundarfjarðar