Fréttir af skólastarfi- apríl að baki
Heil og sæl
Meðal þess sem hefur verið í gangi hjá okkur í apríl er lestrarsprettur sem allir nemendur skólans taka þátt í. Hver og einn les í 20 mínútur heima og aðrar 20 mínútur í skólanum og er stefnan að safna upp í 10.000 mínútur. Umræður eru um bækur og höfunda og markmiðið að stuðla að lestraránægju sem leiði síðan af sér aukna lesfimi og lesskilning.
Í síðustu viku fengu nemendur mið- og unglingastigs fræðslu í boði Vá Vest hópsins. Um var að ræða forvarnarfyrlestra sem Magnúsar Stefánssonar sá um. Vegna aðstæðna var fræðslan í fjarfundi. Fundurinn með unglingunum var forvörn gegn vímuefnum og miðstigsnemendur fengu fyrirlestra um það sem ber að varast á netinu, einelti, samskipti barna og fleira.
Fyrirlestrar fyrir foreldra um sama efni voru haldnir um kvöld, einnig í fjarfundi.
Forsáning er í fullum gangi innandyra og verða plöntur færðar út í beðin á skólalóðinni og settar niður kartöflur þegar við erum orðin nokkuð viss um að vorið sé komið. Við erum reyndar svo mikið fyrir allskonar tilraunir að við prófuðum til samanburðar að setja fræ beint út á sama tíma og við forsáðum því sem fær að þroskast inni.
Nú hyllir undir það að umglingastigið komist í skólaferðalag og þar sem ekki verður af ferð út fyrir landssteinana var tekin ákvörðun um að fara hringveginn um Ísland. Eru nemendur að vinna að metnaðarfullu ferðaskipulagi þar sem á að skoða ýmislegt sem Ísland hefur upp á að bjóða. Hópurinn samanstendur af sjö ungmennum þar sem engin ferð var farin í fyrra og nemendur sem útskrifuðust þá frestuðu sinni ferð um ár. Þar sem eitthvað vantar upp á sjóðinn svo hægt sé að gera allt sem hugurinn girnist var ákveðið að ráðast í að gera skólablað og er það aldeilis eitthvað í reynslubankann.
Það er ekkert óhefðbundið við það að sjá yngri nemendur skólans við hin ýmsu verkefni utandyra en með hækkandi sól og hlýrra veðri munum við verða mikið úti við námið á öllum stigum.
Bestu kveðjur og góða helgi
Sunna