VALMYND ×

Fréttir

Skipulag næstu tveggja til þriggja vikna a.m.k.


Í dag höfum við haft starfsdag sem átti annars að vera á föstudaginn.
Við höfum meðal annars skipulagt skólastarfið miðað við reglugerð um takmörkun á skólastarfi sem gildir frá 3.- 17. nóvember 2020.
Skólinn okkar er fámennur og telst því sem eitt sóttvarnarhólf og geta kennarar því sinnt öllum bekkjum eins og þarf.
Íþróttir og sund falla niður en við höfum sett útivist á stundaskrá í staðinn.
Nemendur unglingastigs geta ekki sótt tíma á Ísafirði, hvorki valfög né skóladag á þriðjudegi og hefur stundaskránni verið breytt til að koma til móts við þá kennslu. Skóladagurinn skerðist þó eitthvað við þetta.
Skóladegi hjá mið og unglingastigi lýkur kl. 13:55 á mánudögum og miðvikudögum, á þriðjudögum og fimmtudögum lýkur honum kl 13:15 og kl. 12:00 á föstudögum.
Skóladagur hjá yngsta stigi helst óskertur.
Í 5. - 10. bekk er grímuskylda ef ekki er hægt að fylgja eftir 2 metra fjarlægðarmörkum. Við höfum gott rými og nemendur þurfa því ekki að bera grímur í kennslustundum allan daginn en geta þurft þess við sérstök verkefni og að sjálfsögðu ef þau velja það. Kennarar bera grímur við kennslu þessara hópa. Skólinn útvegar grímur eftir þörfum en þeir sem eiga fjölnota grímur mega gjarnan taka þær með.
Í 1. - 4. bekk á grímuskylda ekki við.
Matur verður sóttur í Gunnukaffi og snæddur í skólahúsinu.
Spritt og gímur er staðsett í anddyri. Farið verður yfir rétta notkun á grímum með mið og unglingastigi í fyrramálið og minnt á mikilvægi þess að vera meðvitaður um eigin sóttvarnir.
Foreldraviðtöl verða tekin eins og til stóð í samráði við umsjónarkennara.

Vonandi á þetta allt eftir að ganga sem best hjá okkur og þessar takmarkanir að skila árangri.

Góðar kveðjur

Sunna

 

Októbermánuður í skólastarfinu

Nú er októbermánuður að baki og verður hér stiklað á stóru um það sem hann bar í skauti sér í skólastarfi Grunnskóla Önundarfjarðar. 

Vesfjaraðkjálka verkefnið sem var samþætt í samfélagsfræði, íslensku, ensku og dönsku hjá unglingastigi tók enda með kynningu, sem flutt var á ensku ,fyrir starfsmenn og nemendur.  Miðstigið hefur einnig verið að vinna með Vestfjarðakjálkann með ýmsum hætti. 

Yngsta stigið er enn á fullu að vinna með verkefnið Flateyrin okkar. Þau eru á fullu að búa til mynda/teiknivegg sem fer ört stækkandi. Einnig hafa þau unnið með Goðahólinn og sjá fyrir endann á þeirri vinnu í næstu viku en þá stefna þau að því að prenta út bækur með sinni sögu á bak við Goðahólinn og lesa hvert fyrir annað. 

Haldin var heljarinnar afmælisveisla þegar Erla, Silla og Zuzanna áttu afmæli með tveggja daga millibili og varð fyrir valinu að halda hana mitt á milli afmælisdaganna. Unglingastigið nýtti heimilisfræðitíma í bakstur af þessu tilefni. 

Yngri nemendurnir saumuðu sér svuntur til að nota í heimilisfræðinni og tókst vel til, engar tvær urðu eins frekar en nemendurnir sjálfir. 

Ýmsar tilraunir voru gerðar í náttúrufræðinni. Þau yngri gerðu meðal annars eldflaug þar sem matarsódi og edik var látið hvarfast saman í flösku. Mið og unglingastig var að vinna með þrýsting og gerðu ýmsar tilraunir tengdar honum. 

Engin danskennsla hefur verið þennan mánuðinn vegna þess að kennarar hafa ekki mátt kenna í tveimur skólum sama daginn. Í stað danstímanna hafa nemendur verið í verklegum tíma þar sem þeir hafa fengið að velja sér viðfangsefni og er tálgun eitt af því sem hefur orðið fyrir valinu. 

Íþróttir fóru fram utan dyra án undantekninga þó veðrið hafi verið misjafnt.  Yngstu nemendunum leiðist ekki misjafnt veður og eru í útikennslu alla miðvikudaga. I síðustu viku nýttu þau hvassviðrið til að finna kraftinn í vindinum og fylgjast með skýjunum á ferð um himininn. 

Ævar vísindamaður kom í heimsókn í gegnum fjarfundarbúnað og las upp úr nýrri bók sinni Mín eigin undirdjúp. Allir nemedndur skólans hlýddu á lesturinn og spurðu Ævar nokkurra spurninga að lestri loknum. 

Mánuðurinn endaði á heljarinnar Hrekkjavöku.  Á fimmtudaginn undirbjuggu nemendur og kennarar það sem koma skildi af miklum metnaði. Föstudagurinn hófst svo með ýmsum leikjum, fyrst feluleik meðan myrkrið var sem mest. Borðaður var grænn grautur og skreyttar muffins úr heimilisfræðinni. 

Nú tekur nóvembermánuður við með hertum aðgerðum vegna covid 19.  Starfsdagurinn sem átti að vera föstudaginn 6. nóvember verður því færður fram á mánudaginn 2. nóvember svo við getum undirbúið það sem koma skal í þeim efnum. 

Allar nánari upplýsingar verða birtar hér og á facebook síðu foreldrafélagsins jafn óðum og þær liggja fyrir. 







 

Hertar aðgerðir- upplýsingar vegna leik og grunnskóla

Upplýsingar varðandi leikskólastarfið eftir helgina:
Allt getur haldið áfram með svipuðum hætti og verið hefur. Grímuskylda á við um fullorðna þegar ekki er hægt að halda 2 metrum á milli manna, t.d. í anddyri við upphaf og lok skóladags.
Nemendur leikskóla eru undanþegnir fjarlægðarmörkum og grímunotkun.
 
 
Upplýsingar varðandi grunnskólastarf eftir helgina: 
Ákvörðun hefur verið tekin um að mánudaginn 2. nóvember verður skipulagsdagur í öllum grunnskólum Ísafjarðarbæjar. Fyrihugaður skipulagsdagur okkar föstudaginn 6. nóvember verður því skóladagur.
Er þetta gert í framhaldi af blaðamannafundi stjórnvalda fyrr í dag en ljóst er að reglugerð um skólastarf er enn nokkuð óljós.
 
 
Ég bið ykkur um að fylgjsat með fréttum en einnig mun ég senda nánari upplýsingar þegar þær liggja fyrir

Föstudagur 30. október Hrekkjavökustemning

Hrekkjavaka G.Ö. 2019
Hrekkjavaka G.Ö. 2019
1 af 2

Heil og sæl 

Á föstudaginn ætlum við að hafa Hrekkjavökustemningu í grunnskólanum. Nemendur og starfsmenn eru hvattir til að koma í búningum af þessu tilefni.  Þennan sama dag ætlar Ævar vísindamaður að lesa fyrir okkur úr nýju bókinni sinni Mín eigin undirdjúp. Vegna aðstæðna kemur Ævar ekki til okkar heldur les hann og spjallar við okkur í gegnum fjarfundarbúnað. 

Til upplýsinga

Heil og sæl
Við höldum áfram ótrauð inn í næstu viku sem eru fjórir dagar bæði á leik og grunnskóla þar sem starfsdagur er á leikskólanum á föstudaginn og vetrarfrí í grunnskóla á föstudag og mánudag.
 
 
Mig langar að koma hér með upplýsingar um muninnn á úrvinnslusóttkví og sóttkví en það sem af er skólaárinu hefur enginn frá leik eða grunnskóla farið i sóttkví en nokkrir í úrvinnslusóttkví.
-Úrvinnslusóttkví er það kallað þegar einstaklingur með einkenni fer í sýnatöku og bíður eftir niðurstöðum eða fjölskyldumeðlimur með einkenni fer í sýnatöku þá eru allir á heimilinu í úrvinnslusóttkví.
-Sóttkví er þegar einstaklingar hafa umgengist smitaðan einstakling eða verið í sama rými og smitaður einstaklingur. Þá fara viðkomandi í sóttkví í viku og svo sýnatöku. Reynist sýnið neikvætt þá eiga viðkomandi að fara varlega í eina viku í viðbót og eru þá í smitgát. Ef aðstæður leyfa getur nemandi í smitgát mætt í skólann en þarf að gæta 2 metra reglu og hafa sér salernisaðstöðu svo það getur verið erfitt að koma því við.
Þeir sem eru með kvef eða flensueinkenni eru beðnir um að vera heima og flestum finnst betra að fara í sýnatöku til að vera alveg vissir. Það er mjög mikilvægt að upplýsingar berist skólanum ef um sóttkví er að ræða.
Við höfum upplýst ykkur þegar starfsmenn hafa farið í úrvinnslusóttkví. Flesta daga er einhver nemandi annars skólans eða beggja í burtu vegna kvefs eða flensueinkenna. Ef um staðfest smit er að ræða fer ferli í gang og allar nauðsynlegar upplýsingar berast ykkur.
 
 
Við verðum áfram á varðbergi og sinnum sóttvörnum í hvívetna. 
 
Bestu kveðjur
Sunna

Til upplýsinga um stöðuna

Nokkrir punktar um hvernig við erum að bregðast við hertum aðgerðum í skólunum :
  • Minnum stöðugt á fjarlægð á milli fullorðinna.
  • Við berum ábyrgð á okkar persónulegu sóttvörnum og minnum nemendur á.
  • Við aukum þrif, t.d. með því að þrífa snertifleti oftar. 
  • Allir fullorðnir sem í skólana koma spritti hendur við komu og noti grímu verði ekki hægt að virða fjarlægðarmörk.
  • Foreldrar leikskólabarna komi eingöngu í fataklefa (nota spritt í anddyri áður en lengra er haldið)
  • Starfsmenn sem vinna í fleiri en einum skóla fari eingöngu í einn skóla á dag.
  • Ekki er grímuskylda í vinnu með börnum, grímur eru á staðnum og kennarar geta valið að bera grímu í kennslu. 
  • Fundir verði fjarfundir þar sem því verður við komið og grímuskylda er á fundum ef rými eru lítil og ekki hægt að virða fjarlægðarmörk.
  • Foreldraviðtölum sem vera áttu fimmtudaginn 15. október hefur verið frestað fram yfir vetrarfrí. 
  • Mælst er til þess að starfsfólk fari ekki á landsvæði þar sem nýgengi smita er hátt nema brýna nauðsyn beri til.

Föstudagsfréttir úr G.Ö.

Nemendur í lestarferð á nýju stólunum.
Nemendur í lestarferð á nýju stólunum.
1 af 2

Það hefur margt áunnist í skapandi skólastarfi grunnskólans þessa vikuna. 

Yngsta stigið hefur unnið áfram að verkefni um Goðahól og hlakka þau mikið til að geta sýnt  afraksturinn.

Allir nemendur skólans fóru í lesfimipróf í vikunni og strákarnir í 4. bekk tóku samræmd próf í íslensku og stærðfræði. 


Unglingastigið er búið að teikna Vestfjarðakjálkann upp á vegg og verður hann nýttur til ýmissa verkefna á öllum skólastigum. Unglingarnir eru að vinna stórt verkefni þar sem Vestfirðir eru ígrundaðir sem ferðamannaparadís og eru nemendur að gera kynningu á því. Verkefnið er samþætt inn í samfélagsfræði, íslensku, ensku og dönsku. Miðstigið er að  að merkja inn á kortið staðsetningar, bæjarnöfn og fjarðanöfn. Mikilvægt er að nemendur þekki sitt nærumhverfi og er þetta liður í því. 

Í handmennt er verið að vinna að þæfingu og munu þau listaverk fljólega skreyta glugga skólahússins. 

Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, kom í heimsókn til okkar á miðvikudaginn og átti gott spjall við nemendur á unglingastigi. Nemendur höfðu einnig hitt hann á Ísafirði á þriðjudaginn og fengu þess vegna að hafa talsverð áhrif á umræðuefnið á miðvikudeginum. Verkefni Þorgríms ber yfirskriftina ,,Verum ástfangin af lífinu" en þar leggur hann áherslu á markmiðasetningar, árangur og lífið sjálft og hvetur nemendur til að láta drauma sína rætast með því að bera ábyrgð á eigin lífi, setja sér markmið, hafa trú á sjálfum sér til að ná markmiðunum og skipuleggja sig í samræmi við það.

Þorgrímur fjallar einnig um mikilvægi þess að halda góðu jafnvægi milli einkalífs, atvinnu og tómstunda til þess að þroskast fallega og lifa björtu lífi. Þá hvatti hann nemendur til að sýna samkennd, bera virðingu fyrir öllum og hafa hugrekki til að fylgja hjartanu. Við erum öll einstök og eigum að njóta þess.

 
 

Hér erum við bjartsýn á að íþróttahúsið komist í notkun á næstu dögum og hægt verði að færa íþróttirnar undir þak í næstu viku en nánari skilaboð munu berast um það ef það tekst.

Myndirnar með fréttinni eru af hápunkti vikunnar á yngsta stigi en þau fengu nýja stóla í dag og brugðu aðeins á leik af því tilefni. 

 

 

Fyrsti mánuðurinn að baki í skólastarfi

Í Grunnskóla Önundarfjarðar er öllum tekið opnum örmum.
Í Grunnskóla Önundarfjarðar er öllum tekið opnum örmum.
1 af 11

Heil og sæl

Hér koma fréttir af starfinu í Grunnskóla Önundarfjarðar þegar fyrsti mánuðurinn er að baki. Það er ýmislegt sem hefur áorkast og sjást þess glögg merki að hér er lifandi skólastarf í gangi. Verkefni nemenda skreyta ganga skólans og má þar fyrst nefna opinn faðm sem mætir gestum en það er mælingverkefni frá síðasta vori sem fengið hefur að hanga uppi. Þegar upp á efri hæðina er komið blasir við þetta flotta tré sem nemendur unglingastgs hafa málað á vegginn og er nú tilbúið til notkunar við ýmsa orðavinnu.  Ýmislegt er einnig unnið, ritað og lesið sem ekki sést uppi á veggjum. 

Á haustdögum fóru nemendur í gönguferðir, þau yngri út í skóg en eldrri nemendur gengu frá Botnsheiðar afleggjara niður að gangnamunna í Breiðadal. Veðrið lék ekki við okkur þennan daginn en við fórum nú samt sem áður og gekk allt vel. 

Á miðvikudaginn fengum við heimsókn frá Páli Halldóri sem ferðast um með veltibílinn. Allir nemendur og einhverjir starfsmenn prófuðu og fannst upplifunin merkileg og dálítið spennandi og fundu fyrir því hvernig beltin bjarga. Þennan sama dag fóru svo miðstigsnemendurnir á Suðureyri til að hitta fulltrúa frá Stofnun Árna Magnússonar sem færðu okkur verkefnið Handritin til barnanna. 

Núna þessa dagana er þemaverkefni í gangi hjá yngsta stiginu þar sem þau eru að læra ýmislegt um Önundarfjörð, verkefnið teygir sig einnig upp á mið og unglinastig en þau taka allan Vestfjarðakjálkann fyrir. Í tengslum við þetta verkefni er ýmis fríðleikur kominn upp á veggi. 

Myndir segja svo miklu meria en orðin svo ég læt hér fylgja myndasafn og einnig er hægt að skoða myndasöfn tengd ákveðnum dögum eða þemum hér á síðunni. 

 

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar haustið 2020 fer fram í sal skólans mánudaginn 24. ágúst kl. 10:00. Að lokinni örstuttri setningarathöfn fara nemendur og foreldrar á fund með umsjónarkennara. Einnig verður boðið upp á einstaklingsviðtöl fyrir þá sem þess óska. 

Við förum full tilhlökkunar inn í nýtt skólaár. 

Starfsmannamál á komandi hausti

Heil og sæl

Hér koma upplýsingar um starfsmannamál á komandi hausti. Á hverju vori eru auglýstar þær stöður sem leiðbeinendur hafa sinnt í stað kennara. Að þessu sinni bárust nokkuð margar umsóknir. Í Grunnskólanum munu Jóna Lára og Sigurður Hafberg kenna áfram en í kennarahópinn bætist Erla Sigrún Einarsdóttir. Þau eru öll með leyfisbréf. Í leikskólanum bætist Lisa Haye við hópinn í byrjun ágúst og verða Hanna Maggý, Joanna, Katarzyna, Sólveig María og Grazyna þar áfram starfandi. Júlía Ósk kemur svo aftur til starfa á leikskólanum í nóvember. Við horfum bjartsýn til haustsins og kveðjum þá starsmenn sem láta af störfum með þökkum um leið og við bjóðum nýja starfsmenn velkomna.