Fréttir af skólastarfi vikuna 11. – 15. nóvember.
Eins og flestir vita var vatnsleysi á Flateyri í vikunni og skólinn auðvitað engin undantekning þar á. Vatnsleysið gaf okkur m.a. tækifæri til að ræða mikilvægi vatns og hversu háð við erum því í daglegu lífi. Sérstaklega var rætt um vatnsnotkun tengda klósettferðum og hversu ómissandi hreint vatn er í því samhengi. Nemendur tóku þessu vatnsleysi með miklu jafnaðargeði en hugsanlega hafa þau aldrei verið jafn þyrst og þar sem skólastjórinn býr á Ísafirði fengu þau hreint og ferskt ísfirskt vatn að drekka. Sumir töldu sig finna bragðmun sem við munum rannsaka við tækifæri þegar að vatnið á Flateyri er komið í lag.
Annað sem við tökum okkur fyrir hendur fyrir utan almenna kennslu er t.d. skákkennsla en nemendur eru allir með amk. einn fastan skáktíma á viku í töflu. Nemendur læra grunnatriði skákarinnar og fá að æfa sig og keppa við hvert annað. Skák eflir m.a. einbeitingu, þjálfar rökhugsun og félagsfærni. Skákkennsla er einnig frábær leið til að styrkja þolinmæði og sjálfstæða hugsun, svo eitthvað sé nefnt.
Í fámennum skóla skiptir máli að þjálfa samvinnu og félagsfærni þar sem að nemendur vinna oft saman í fjölbreyttum hópum þvert á aldur og getu. Í litlum hópum hefur hver einstaklingur áhrif á heildina og hvetur þessi þjálfun til ábyrgðar, trausts og samheldni. Auk þess undirbýr þetta nemendur fyrir lífið í fámennu samfélagi, þar sem samstarf og samskipti eru mikilvæg. Slík þjálfun styrkir skólabraginn og skólasamfélagið í heild. Við nýtum m.a. félagsfærnispilið sem og fjölbreytta samvinnu- og samskiptaleiki.
Áhugasvið nemenda í GÖ eru fjölbreytt og leggjum við áherslu á að efla þau jafnt í námi sem og í frjálsum tíma. Nemendur hafa m.a. aðgang að hljóðfærum í tónlistarstofunni til að æfa sig, prjóna þegar að það á við, hnoðast undir leiðsögn, velja sér bækur útfrá áhuga og nýta verkmenntastofuna til fjölbreyttra verka.
Þessa stundina taka nokkrir nemendur þátt í uppsetningu leikritsins Blái hnötturinn á vegum Leikfélags Flateyrar og hvetjum við öll til að gera sér ferð á sýningu.