VALMYND ×

Fréttir

Starfsmannafundur á leikskólanum Grænagarði 16. mars 2020

Á morgun verður starfsmannafundur í leikskólanum og opnar hann fyrir nemendur kl. 10:00. Eins og flestum er eflaust kunnugt hefst samkomubann vegna COVID 19 veirunnar nú á miðnætti og mun standa yfir næstu fjórar vikurnar. Fundinn munum við nýta til að fara yfir þau fyrirmæli sem borist hafa og verkfferla svo við náum að leggja okkar af  mörkum til að sem bestur árangur náist við að  hægja á framgangi veirunnar. Þessir verkferlar nýtast okkur einnig í baráttu við aðra smitsjúkdóma sem hafa verið í gangi undanfarið. 

Við minnum ykkur á að halda börnum heima ef þau eru með einhver einkenni flensu eða kvefs og einnig að athuga ef um útbrot er að ræða að þá gæti þar verið  hlaupabóla eða gin og klaufaveiki á ferðinni. 

 

 

Vikupistill 9. - 13. mars

Þar sem þær breytingar urðu í dag að takmarkanir voru settar á samkomuhald ætlum við að fresta árshátíð grunnskólans. Við munum samt sem áður nýta tíma til æfinga meðfram öðru námi og stöndum klár í sýningu þegar þar að kemur.  

Við gerum ráð fyrir að skólastarf í leik og grunnskóla raskist ekki mikið þrátt fyrir takmarkanir á samkomum þar sem við erum alla jafna með fámenna hópa . Ef breyting verður á og ný tilmæli berast þess efnis verða upplýsingar sendar foreldrum eins fljótt og unnt er. 

Í vikunni bárust forráðamönnum tölvupóstar frá skólanum þar sem minnt var á að halda börnunum heima ef minnsti vafi leikur á að þau séu með smitandi sjúkdóma en bæði hafa verið í gangi hlaupabóla og Hand, fóta og munnsjúkdómur (gin og klaufaveiki). Einnig kom póstur vegna COVID 19 þar sem minnt var á að halda börnum heima væru þau með inflúensulík einkenni (hósti, þreyta, vöðva/bein/höfuðverkur) að vera heima. Og þar sem allur er varinn góður vil ég minna á að mikið kvefuð börn ættu einnig að vera heima. 

En þá aðeins að liðinni viku og starfinu:

Vikan gekk vel við fjölbreytt nám og starf. Samræmd próf í 9. bekk fóru fram á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Síðustu daga hefur vætlað vatn úr slöngu hér fyrir utan skólann og erum við að vona að þar takist fyrir rest að mynda skautasvell en þegar það verður komið munum við tilkynna það svo bæjarbúar geti komið og rennt sér með okkur. Einnig munum við þá óska eftri því að nemendur komi með hjálma með sér til að nota við skautaiðkunina en við erum með nóg af skautum í húsi. 

 

Matseðill 16. - 20. mars

 

Mánudagur 16. mars. Fiskur í Mexíkó og piparostasósu, hrísgrjón og salat. 

Þriðjudagur 17. mars. Gúllas, kartöflumús og salat. 

Miðvikudagur 18. mars. Fiskur í mangósósu, hrísgrjón og salat. 

Fimmtudagur 19. mars. Lasanja og salat. 

Föstudagur 20. mars. Grænmetisbuff (súpa sem átti að vera víxlaðist við síðasta föstudag) 

Til upplýsinga vegna veikinda leik- og grunnskólabarna

Heil og sæl

Undanfarið hafa nokkur börn úr leik og grunnskóla verið heima vegna veikinda með útbrotum. Virðist svo að annarsvegar sé um að ræða hlaupabólu en hinsvegar hand- fót og munnsjúkdóm ( gin og klaufaveiki). 

Ég set hér linka með upplýsingum og minni á mikilvægi þess að tilkynna alltaf til leik og grunnskóla þegar um er að ræða smitandi sjúkdóm. Ef minnsti vafi leikur á er um að gera að láta lækni sjúkdómsgreina. 

 

https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12481/Hand---fot--og-munnsjukdomur

https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item15637/Hlaupabola-(Varicella-Zoster)

https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item37419/bolusetning-vid-hlaupabolu

 

Bestu kveðjur

Sunna

Til upplýsinga

Með tilliti til þess að almannavarnir hafa lýst yfir neyðarstigi vegna COVID-19 kórónaveirunnar vil ég koma eftirfarandi upplýsingum varðandi leik og grunnskóla á Flateyri. 

Starfsemi skólanna helst óbreytt meðan ekki koma tilmæli um annað. 

Ef til kemur að nemendur eða starfsfólk verði sent heim vegna sóttkvíar verður kennslu grunnskólanemenda haldið uppi með fjarkennslu og heimaverkefnum. 

Við erum meðvituð um smitleiðir og höfum aukið áherslu á handþvott og höfum spritt uppi við á sem flestum stöðum en þess má þó geta að handþvottur er almennur alltaf áður en börnin matast og eftir salernisferðir og því bara handsprittið sem þar bætist við þó það hafi alltaf verið í boði. 

Leiðbeiningar um hvernig draga megi úr sýkingarhættu hafa einnig verið hengdar upp í skólunum á einu eða fleiri tungumálum eftir því sem við á. 

Lögð er áhersla á að þrífa vel yfirborðsfleti, svo sem handrið, hurðarhúna, ljósarofa og fleira.

Þó að það sé liður í auknu sjálfstæði nemenda og minnkun á matarsóun að nemendur skammti sér matinn sjálfir verðum við að bregða á það ráð að skammta á diskana tímabundið til að draga úr líkum á smiti. 

 

Enn sem komið er höldum við áfram að æfa fyrir árshátíð grunnskólans sem stendur til að halda 26. mars næstkomandi en erum því viðbúin að þurfa að fresta henni ef aðstæður breytast. 

Bestu kveðjur

Sunna

Matseðill 9. - 13. mars

Mánudagur: Steiktur fiskur, kartöflur, lauksmjör og salat.

Þriðjudagur: Kjúklingaréttur

Miðvikudagur: Lax

Fimmtudagur: Svikinn héri

Föstudagur: Grænmetisbuff

 

Matseðill 2. - 6. mars

Matseðill 2. - 6. mars

2. mars Hakk og spaghettí

3. mars Soðinn fiskur, kartöflur, rúgbrauð og grænmeti

4. mars Grjónagrautur, brauð og álegg

5. mars Fiskur í orlí, kartöflur og salat

6. mars Reyktur grísahnakki, gratineraðar kartöflur, sósa og salat

Unglingastigið fer á Ísafjörð í dag

 Nemendur 9. og 10. bekkjar fara í dag yfir á Ísafjörð þar sem Elísabet Lorange listmeðferðarfræðingur verður með námskeið fyrir þá á vegum VáVest  Námskeiðið hefst klukkan 9 og stendur til kl. 12:30. Matur verður í mötuneyti grunnskólans á Ísafirði.  Þeir sem eru að fara í val halda áfram á Ísafirði en aðrir fá far heim eftir hádegið. 

Fræðslufundur fyrir foreldra, um afleiðingar áfalla og leiðir til að takast á við þær.

Nú er Petra Hólmgrímsdóttir sálfræðingur búin að heimsækja okkur undanfarið og spjalla við börn og foreldra sem það hafa þegið og meta þjónustuþörf áfallameðferðar eftir snjóflóðin. Í framhaldi af þessari áfallavinnu verður hún með fræðslufund fyrir foreldra og verður hann í grunnskólanum þriðjudaginn 25. febrúar kl. 8:30. Á fundinum verður stutt fræðsla um hvernig afleiðingar áfalla birtast hjá börnum og farið yfir gagnlegar upplýsingar og leiðir fyrir foreldra til að takast á við afleiðingar áfalla með börnunum sínum. Eru foreldrar almennt séð mikilvægasti hlekkurinn í þeirri vegferð. Petra verður svo til viðtals eftir fundinn fyrir þá sem vilja. Áframhald verður á áfallavinnunni meðan þörf er á.