VALMYND ×

Fréttir

Netskákmót fyrir grunnskólanemendur

 

 

Skáksamband Íslands í samvinnu við grunnskóla á Vestfjörðum blása til netskákmóta fyrir grunnskólanemendur svæðisins. Mótin verða alla fimmtudaga og hefjast klukkan 16:30 og standa í klukkustund.

 

Fyrsta mótið er nú á fimmtudaginn kemur 2. apríl kl. 16:30. Teflt verður á chess.com

 

Mótin eru þannig að eftir hverja skák byrjar alltaf ný skák um leið, gegn nýjum andstæðingi. Einungis þarf að klikka á "next match" þegar skákin er búin.

 

Til að taka þátt þarf að fara í gegnum fáein einföld skref. Best er að klára skref 1 og 2 sem fyrst.

 

  1. Búa til aðgang áchess.com(ef aðgangur er ekki til staðar nú þegar). Aðgangur er ókeypis og einfalt að búa til aðgang: https://www.chess.com/register

 

  1. Gerast meðlimur í hópnum "Skólaskák Vestfirðir": https://www.chess.com/club/skolaskak-vestfirdir

 

  1. Skrá sig á mótin sem er hægt að gera frá 60 mínútum áður en þau hefjast. Hér er tengill á fyrsta mót: https://www.chess.com/live#r=176265

 

Það þarf að ýta á "join" og svo bara bíða eftir að fyrsta skák byrjar klukkan nákvæmlega 16:30

 

Til að tefla í mótinu þarf að notast við fartölvu eða borðtölvu. Chess.com appið virkar ekki í mótum.

Hér má sjá almennar leiðbeiningar um hvernig má skrá sig á chess.com: https://www.youtube.com/watch?v=6HkWj7LCeWw&feature=youtu.be&fbclid=IwAR3RXTnvcyxN2DAf6j_oQEuHU4YvedQiPxRPuwFyU_GMDlAQ5J5Kxugfnl8

 

Mótin verða alla fimmtudaga næstu vikurnar og hefjast alltaf klukkan 16:30. Að ofan er tengill á fyrsta mótið en til að vera með í mótum á næstunni þarf einfaldlega að mæta á chess.com frá 15:30 á fimmtudögum og skrá sig í mótið í gegnum hópinn "Skólaskák Vestfirðir".

 

Öllum spurningum svarar Stefán Bergsson æskulýðsfulltrúi Skáksambands Íslands.á netfangið stefan.steingrimur.bergsson@rvkskolar.is eða í síma 863-7562,

 

Vikulokapistill 23.-27. mars

Nú eru liðnar tvær vikur frá því að samkomubann var sett á. Vissulega litar það skólastarfið hjá okkur en samt sem áður njótum við þeirra forréttinda að geta boðið öllum nemendum upp á nánast fullt skólastarf. Í leikskólanum hefur ekki komið til neinnar skerðingar á tíma og aðeins þurft að hliðra til í starfinu og sjá til þess að hópar seú aðskildir og að starfsmenn fari ekki á milli hópa. Í grunnskólanum er sömu sögu að segja með aðskilnað hópa og fasta starfsmenn með hóp. 

Það hefur verið gaman að fylgjast með starfsmönnum takast á við nýjar áskoranir þar sem nemendum er fjarkennt hvort sem þeir eru heima eða í skólastofunni í tíma hjá kennara sem ekki má koma inn til hópsins. Mikið framboð hefur verið á kennsluefni fyrir kennara og hafa þeir verið duglegir að læra nýja hluti þessar vikur. 

Það hefur ekki síður verið ánægjulegt að fylgjast með nemendum vaxa og þroskast í gegnum alla þá lífsreynslu sem þeir hafa öðlast á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020, sem hefur alls ekki verið sá auðveldasti sem hægt væri að hugsa sér. 

Nú eigum við eina viku eftir í grunnskólanum fram að páskafríi og verður hún með sama sniði og síðasta vika ef ekkert óvænt kemur upp á. Leikskólinn mun starfa fram að uppstigningardegi en þá tekur við kærkomið páskafrí. 

 

Ég ætla að enda á að minna á mikilvægi þess að taka hlutunum líka alvarlega í frítímanum og huga að smitvörnum. Hér er hlekkur á skilaboð frá Landlækni til heimilanna: https://www.heimiliogskoli.is/2020/03/20/samkomubann-og-born-leidbeiningar-fra-landlaekni/

Bestu kveðjur og góða helgi

Sunna

Vika tvö í samkomubanni- grunnskólinn

Heil og sæl

Enn gerum við breytingar til að gera okkar besta í hertum aðgerðum í samkomubanni. Nú höfum við það þannig að starfsmenn fara sem allra minnst á milli nemendahópanna og helst bara ekki neitt. Solla og Jóna sjá um yngri hópinn og Siggi og Sunna um eldri hópinn.  Stundaskrá heldur sér samt sem áður að mestu fram til kl 13:15 en samskipti við greinakennara fara fram í gegnum tölvu séu þeir ekki þeir sem eru með hópinn. Þessi hluti af verkefninu sem við fengum óvænt í hendurnar er að vissu leyti skemmtilegur. Öll höfum við gott af hæfilegri ögrun. Váin sem yfir vofir er samt þrúgandi. 

Skóladagur 5. - 10. bekkjar styttist á þriðjudögum frá og með deginum í dag þar sem ekki er hægt að halda úti þematímunum sem eru eftir kl 13:15. Þar er um að ræða blandaðan hóp og of mikið af verkfærum sem þyrfti að skiptast á með svo niðurstaðan varð að þessir tímar verða ekki fyrr en að afloknu samkomubanni. 

Einnig hefur sú breyting að starfsmenn fari ekki á milli hópa í för með sér styttingu hjá 9. og 10. bekk á miðvikudögum.

Lengd skóladags er því svona þessa daga: 

9. og 10. bekkur 

Mánudagur: 8:15- 12:00

Þriðjudagur: 8:15- 13:15

Miðvikudaur 8:15- 13:15

Fimmtudagur:8:15- 12:20

Föstudagur: 8:15- 12:00

1.-5. bekkur

Mánudagur: 8:15- 13:15 (5. bekkur -13:55)

Þriðjudagur:8:15- 13:15

Miðvikudagur: 8:15-13:55

Fimmtudagur: 8:15- 13:15 (5. bekkur - 13:55)

Föstudagur: 8:15-12:00

Meðan skólahald helst ennþá í þessum skorðum starfar dægradvöl einnig. 

 

Bestu kveðjur

Sunna

 

Til forráðamanna að beiðni Samhæfingarmiðstöðvar almannavarna,

 

 

Reykjavík 20. mars 2020

Efni: Samkomubann og börn

Skólar, leikskólar og íþróttafélög hafa skipulagt vandlega fyrirkomulag næstu daga og vikur til að fara eftir fyrirmælum heilbrigðisráðherra um takmarkanir á skólastarfi og samkomum.

Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla. Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum. Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim. Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er. Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar.

Varðandi heimili þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:

Börn sem hafa þroska og getu til að sinna eigin hreinlæti og halda viðeigandi fjarlægð við foreldra sem eru í sóttkví sem og við skólafélaga geta áfram sinnt námi í skólastofu. Mikilvægt er að gæta að hreinlæti t.d. nota sér salernisaðstöðu. Foreldrar stálpaðra barna sem eru í sóttkví og geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta áfram sinnt vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki í boði. Heimilið verður allt að fara í sóttkví ef börn hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem gilda í sóttkví. Önnur leið til að leysa slíkt væri ef þeir sem ekki eru í sóttkví færu eitthvað annað á meðan á henni stendur.

 

 

 

 

AHS

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir
Deildarstjóri almannavarna höfuðborgarsvæðisins
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs.

(+354) 8626375  (+354) 528 3000  thorak@shs.is  http://shs.is  Skógarhlíð 14, 105 Reykjavík, Ísland

 

 

Vikupistill 16. - 20. mars

Heil og sæl

Þessi vika hefur verið dálítið skrítin þó hefðbundið nám sé allt í föstum skorðum og nemendur yfirvegaðir við þær aðstæður sem nú ríkja. 

Eins og hefur komið fram notuðum við fyrstu tvo daga vikunnar til að sótthreinsa og til að undirbúa breytta kennsluhætti sem þegar hafa komið til framkvæmda hjá yngri nemendum þar sem nokkur þeirra hafa verið að spreyta sig á verkefnum í gegnum Seesaw. Við erum einnig óðum að verða tilbúin að bregðast við fjarnámi með eldri nemendunum ef til þess kemur. Þetta eru áskoranir en öll höfum við gott af þeim. 

Skipulagið sem við vinnum eftir til að framfylgja fyrirmælum almannavarna gengur vel. Skólastigin eru alveg aðskilin en við venjulegar kringumstæður borða allir nemendur saman, fara saman í danstíma og mið og unglingastig er saman í verkgreinum. Þessi aðskilnaður hefur gengið upp. Til að forðast blöndun hafa unglingarnir verið inni í frímínútum og auk þess njóta þeir þeirra forréttinda að fá morgun og hádegismat inn í stofuna til sín. 

Dagný tónlistarkennari hefur starfsstöð hjá okkur en Jón Gunnar kennir okkar nemendum í gegnum Skype. 

Sólveig María sem kom inn í afleysingar frá 1. mars kennir dansinn tímabundið þar sem engir kennarar fara á milli starfsstöðva meðan samkomubann stendur yfir. 

Ég hef ekki viðveru á leikskólanum þessar vikur heldur eingöngu tölvu og símasamskipti við deildarstjóra. Öll verðum við að hugsa þetta þannig að við getum verið sá sýkti og þá viljum við ekki smita aðra og hittum því eins fáa og við mögulega getum komist upp með. Það er einnig mikilvægt að foreldrar hafi í huga hverja börn þeirra umgangast því það er til lítils að passa upp á að nemendur hittist ekki milli hópa í skólanum ef allir leika svo saman eftir að skóla lýkur. Ég set nýjustu upplýsingar frá almannavörnum í sér póst. 

Vikupóstur frá deildarstjóra leikskólans hefur verið sendur öllum foreldrum í tölvupósti. 

 

Bestu kveðjur og njótið helgarinnar

Sunna

Grunnskóli Önundarfjarðar - starfið næstu vikur

Skólastarf í Grunnskóla Önundarfjarðar 16. mars – 13. apríl 2020

Daginn í dag notuðu starfsmenn grunnskólans til að undirbúa þær breytingar sem bregðast þarf við vegna samkomubanns sem stjórnvöld hafa fyrirskipað næstu fjórar vikurnar til að hefta útbreiðslu COVID-19. 

Kennsla

Lítil sem engin röskun verður á námi yngra stigsins og næst að halda uppi öllum kennslustundurm nema einni og verður sú breyting að skóladegi lýkur 13:15 í stað 13:55 á miðvikudögum (danstími sem fellur niður).  Á unglingastigi falla niður tímar í vali sem sótt hefur verið á Ísafjörð. Þar sem kennarar mega ekki koma á milli skóla verða danstímar með öðru sniði en vanalega. Íþróttatímar verða nýttir í útivist og gönguferðir. Að öðru leyti verður kennsla með hefðbundnu sniði. 

 

Hreinlæti

Í dag voru öll leikföng og kennsludót tekin og sótthreinsuð.  Notkun leikfanga verður  skipulögð þannig að náist að þrífa þau á milli og sumt tekið úr notkun tímabundið. Einnig voru stóla og borð og snertifletir teknir í gegn. Í lok hvers dags verða allir snertifletir sótthreinsaðir til viðbótar við almenn þrif sem fara fram alla daga. Handþvottur með sápu er almennur eftir salernisferðir og fyrir matmálstíma en hefur að undaförnu verið aukinn og er spritt staðsett á öllum starfsstöðvum. Almennt á hvor hópur að halda sig í sinni stofu og samvinna  og samgangur milli hópa verður mjög takmarkaður. 

Umgengni

Foreldrar sem eiga erindi í skólann eru beðnir um að gera vart við sig í anddyri þar sem ekki er æskilegt að fá gesti inn á þessu tímabili. Þeim foreldraviðtölum sem ekki er þegar lokið verður frestað fram yfir páska. Nemendur fara ekki á milli skólabygginga og þar af leiðandi fellur kennsla skólahóps í grunnskólanum niður umrætt tímabil.

 

Matmálstímar

Matur verður sóttur og snæddur í skólahúsinu, unglingarnir verða með matarborð í kennslustofu sinni en yngr nemendurnir borða á gangi á efri hæð. Starfsmaður skammtar mat. Boðið verður upp á ávexti áfram en þeir verða ekki hafðir í sameiginlegri skál heldur fær hver og einn sinn skammt afhentan. 

Veikindi
Engin hvorki kennari né nemandi mæti í skólann sé hann með flensulík einkenni, s.s. hálsbólgu, kvef, beinverki og hita.

 

Við gerum öll okkar besta til að sporna við útbreiðslu veirunnar og vernda hvert annað með því. 

Leikskólinn Grænigarður- starfið næstu vikur

Skólastarf í leikskólanum Grænagarði 16. mars – 13. apríl 2020

Daginn í dag notuðu starfsmenn leikskólans til að undirbúa þær breytingar sem bregðast þarf við vegna samkomubanns sem stjórnvöld hafa fyrirskipað næstu fjórar vikurnar til að hefta útbreiðslu COVID-19. 

Kennsla

Í stað þess að hópar fari á milli stöðva í hópastarfinu eftir hádegið hafa börnin fastan stað en kennarar færa sig á milli staða. Samgangur á milli Odda og Eyrar verður sem allra minnstur. Leyfileg stærð hóps miðast við 20 og erum við í heildina undir þeirri tölu en munum samt alltaf hafa eins fá börn og hægt er í sama rými við leik, mat eða hópatíma.

Hreinlæti

Í dag voru öll leikföng tekin og sótthreinsuð og verður notkun á þeim síðan skipulögð þannig að náist að þrífa þau á milli.  Einnig voru stóla og borð og snertifletir teknir í gegn. Í lok hvers dags verða allir snertifletir sótthreinsaðir til viðbótar við almenn þrif sem fara fram alla daga. Handþvottur með sápu er almennur eftir salernisferðir og fyrir matmálstíma en verður aukinn og er spritt staðsett á öllum starfsstöðvum. 

Umgengni
Foreldrar eru beðnir að gera vart við sig í anddyri þegar þeir koma með börnin og þar tekur starfsmaður á móti barni og fylgir því inn á deild. Þeim foreldraviðtölum sem ekki er þegar lokið verður frestað fram yfir páska. Nemendur fara ekki á milli skólabygginga og þar af leiðandi fellur kennsla skólahóps í grunnskólanum niður umrætt tímabil og nemendur mæta beint í leikskólann alla morgna. 

Veikindi
Engin hvorki kennari né nemandi mæti í skólann sé hann með flensulík einkenni, s.s. hálsbólgu, kvef, beinverki og hita.

 

 

Þriðjudagur 17. mars- áframhaldandi appelsínugul viðvörun- skólahald í lágmarki

 

Þar sem veðuraðstæður hér eru oft ekki alveg þær sömu og annarsstaðar í Ísafjarðarbæ  og nú í augnablikinu er snjófllóðahætta vil ég koma því strax á framfæri að algjör lágmarksstarfsemi verður í leik og grunnskóla á morgun. Ég vil biðja foreldra að tilkynna mér í kvöld eða snemma í fyrramálið með því að kvitta við færslu á facebook síðu foreldrafélagsins eða senda skilaboð í síma 849 3446 ef þeir sjá sér fært að hafa börnin heima á morgun. Ef einhverjir sjá sér ekki fært að hafa börnin heima verður opið fyrir þau börn en gott að vita það svo starfsfólk þurfi ekki að vera á ferðinni ef nauðsyn krefur ekki. 

Bestu kveðjur

Sunna

Skólahald í grunnskólanum næstu vikurnar

Þar sem við erum með fámennan grunnskóla getum við hafið skólahald á eðlilegum tíma í fyrramálið þrátt fyrir að samkomubann vegna COVID 19 veirunnar verði haffið. Þetta bann hefuer samt ýmis áhrif á starf okkar og munum við fara eftir þeim fyrirmælum sem borist hafa og fara yfir verkfferla svo við náum að leggja okkar af  mörkum til að sem bestur árangur náist við að  hægja á framgangi veirunnar. Þessir verkferlar nýtast okkur einnig í baráttu við aðra smitsjúkdóma sem hafa verið í gangi undanfarið. Meðal þess sem við breytum er einstaklingsuppröðun, einstaklingsvinna, meiri sótthreinslun á snertiflötum og að matast verður  í skólahúsinu. 

Kennarar sem kenna við aðra skóla en okkar geta ekki komið til okkar og haldið uppi kennslu á meða ná banninu stendur en við munum finna leið til að fylla upp í kennslustundir þeirra eftir bestu getu. Valgreinar sem unglingar hafa sótt á Ísafjörð falla einnig niður á umræddu tímabili og fara unglingarnir því heim um hádegi þá daga sem það val er á stundatöflu. 

Við minnum ykkur á að halda börnum heima ef þau eru með einhver einkenni flensu eða kvefs og einnig að athuga ef um útbrot er að ræða að þá gæti þar verið  hlaupabóla eða gin og klaufaveiki á ferðinni. 

Ef  um undirliggjandi sjúkdóma er að ræða hjá börnum eða aðstandendm höfum við fullan skilniing á því að forekdrar velji að hafa börni sín heima tímabundið. Sé sú lausn valin skulu foreldrar hafa samband við skólastjóra eða umsjónarkennara og fá börnin þá heimanám og fjarkennslu við hæfi. 

Í lokin vil ég minna á að gefa börnunum tækifæri til að spyrja og spjalla um það sem nú er í gangi því eðli málsins samkvæmt geta þessar aðgerðir valdið einhverjum börnum kvíða. Starfsmenn skólans leitast einnig við að fræða börnin og svara spurningum af yfirvegun.