VALMYND ×

Fréttir

Þetta er í matinn í vikunni:

Mánudagur 8. febrúar

Fiskur með eplum og ananas, hrísgrjón og salat

Þriðjudagur 9. febrúar

Lasanja

Miðvikudagur 10. febrúar

Fjölkorna fiskur, kartöflur, lauksmjör og salat

Fimmtudagur 11. febrúar 

Indverskur kjúklingaréttur, hrísgrjón og salat

Föstudagur 12. febrúar

Skyr og smurt brauð

 

Þorrablót nemenda

Nú er tími Þorrablótanna og héldu nemendur og starfsmenn sitt Þorrablót á bóndadaginn. 

Hver námshópur sá um sín skemmtiatriði sem voru vel undirbúin. Unglingarnir og miðstigið gerðu góðlátlegt grín, eins og tíðkast í annálum, bæði að höfundum sjálfum og starfsmönnum og settu fram í myndböndum. Yngsta stigið sýndi ýmis skemmtiatriði á staðnum og síðan var brugðið á leik þar sem nemendur og starfsmenn voru þátttakendur. Að lokum var borðhald þar sem snæddur var þorramatur og nemendavísur sungnar. Þessi dagur og undanfari hans reyndi á hin ýmsu hæfniviðmið nemenda. 

Skólastarsfsfréttir

Þá eru fyrstu tvær vikur ársins að baki og hefur miklu verið áorkað sem fyrri daginn. 

Jólin voru kvödd á þrettándanum með því að grafa upp eldstæðið og kveikja á því lítið bál. Nemendur og starfsmenn höfðu undirbúið litla athöfn þar sem ýmislegt frá árinu 2020 sem þeir vildu brenna að baki var skrifað á miða sem settur var á bálið. Þegar allt frá árinu 2020 var komið á bálið fóru á það miðar með væntingum til ársins 2021 sem fóru þá út í alheiminn. 

Stundaskráin hefur aftur verið færð til þess fyrirkomlags sem var fyrir takmarkanir og geta unglingarnir nú sótt sína valtíma og þriðjudagsnám á Ísafjörð eins og var í upphafi skólaárs sem vekur mikla lukku. Yngri nemendur fundu ekki fyrir neinni skerðingu í skólastarfi þó ýmsar tilfærslur hafi þurft að gera sem eru þá aftur komnar í rétt form núna. 

Í náminu er verið að vinna með ýmislegt á fjölbreyttan hátt. Frostin undanfarið náðist að nýta til svellgerðar og var svellið tilbúið um síðustu helgi. Yngsta stigið sem er að vinna með ummál og flatarmál dreif sig út og mældi stærð svellsins sem reyndist vera 238 m2. Íþróttatímar vikunnar hafa verið á svellinu og má sjá miklar framfarir hjá nemendum, það er skransað, rennt á öðrum fæti, rennt afturábak og sýndar listir með treflum svo eitthvað sé nefnt. Vonandi fáum við nokkra frostdaga eftir væntanlega rigningu svo við njótum svellsins aðeins lengur.

Yngsta stig og miðstig eru að vinna með mannslíkamann og samþættast þar ýmsar námsgreinar. Sumt vinna þau í sameiningu og annað í sitthvoru lagi. Saman eru þau að vinna að því að búa til ,,Operations" spil og læra þau þá samhliða ýmislegt um líffærin og raflagnir. 

Miðstig og unglingastig eru að vinna með Grunnþarfirnar fimm samkvæmt Uppbyggingarstefnunni, Uppledi til ábyrgðar- uppbygging sjálfsaga. Þessar þarfir eru öryggi, gleði, frelsi, áhrif og að tilheyra. Allir hafa sterka þörf fyrir öryggi en hinar fjórar eru þau búin að greina og finna hvar þeirra þarfir eru sterkastar. Núna eru þau að flokka hugtök tengd þörfunum í jákvæð og neikvæð til að átta sig á að stundum getum við farið út í það að uppfylla þarfirnar okkar á neikvæðan hátt.

Við fengum í hendurnar nýjar tölvur nú eftir áramótin og varð fyrir valinu að fá chromebook fartölvur fyrir nemendur. Ástæða þess vals okkar er að við teljum fartölvur nýtast betur til samvinnu en borðtölvur og einnig að tölvuvinna verði auðveldari valkostur þegar þú þarft ekki að setjast út við vegg við tölvu. Auðvitað á reynslan svo eftir að leiða í ljós hver verður raunin. Nemendur unglingastigs sem fengu hver sína tölvu til að vinna með eru allavega farnir að nýta þær í flest verkefni. Eitt sett verður svo á miðstiginu en yngsta stigið hefur einnig aðgang að þeim tölvum. 

Í dag fengum við að koma í heimsókn í Lýðskólann og kynnast verkefni Björns Steinars vöruhönnuðar sem er að kenna þar núna. Fyrirtækið hans heitir Plastplan og eru þar hannaðir hlutir úr plasti sem hann og meðeigandi hans endurvinna. Við fengum mjög mikinn fróðleik um plast og flokkun þess og munum rifja upp og vinna verkefni tengt heimsókninni í næstu viku. Krakkarnir skoðuðu hluti sem Lýðskólanemar hafa verið að gera úr endurunnu plasti og sýndu því mikinn áhuga. Hver veit nema það fæðist viðskiptahugmynd hjá einhverjum þeirra í framhaldi af þessari heimsókn. 

Bestu óskir um góða helgi. Verið óhrædd við að hafa samband og biðja mig eða Sigga Habb um að koma og opna skólann til að lána ykkur skauta. Síminn minn er 849 3446 og Sigga sími er 863 7662.

Kveðja, Sunna. 

 

Desemberfréttir af Grunnskólastarfinu

Svona búum við til skautasvell
Svona búum við til skautasvell
1 af 10

Nú þegar árið er senn á enda er ekki seinna vænna að segja fréttir af desember starfinu í grunnskólanum. 

Við náðum í upphafi mánaðarins að gera skautasvell á skólalóðinni og var það kærkomin viðbót við íþróttakennslu og hreyfingu og var mikið notað þá daga sem þess naut við. Sundkennsla var einnig í fullum gangi undir stjórn Lísu Sigurðardóttur. 

Ýmislegt jólastúss átti sér stað, skólinn var skreyttur, bakaðar kökur og piparkökur skreyttar. Lummur og eplaskífur voru bakaðar úti á eldi. Nemendur gerðu bækur um jól í mismunandi löndum og síðan fórum við í heimsókn í safnahúsið þar sem við fengum fróðleik um hinar ýmsu hefðir tengdar jólum í öðrum löndum. Mikið af fróðleiknum snerist um þær persónur sem líkjast Grýlu okkar og Jólasveinunum á einhvern hátt. Rútuferðin var nýtt til söngæfinga en tónleikar tónlistarskólans voru sama kvöld. Nemendur og starfsmenn skrifuðu jólakort hver til annars. Unglingarnir fóru í fab lab og var afraksturinn þar ýmist jólaskraut og lampar. 

Starfsmenn brugðu á leik og mættu í kjólum alla daga desembermánaðar og tóku sumir nemendanna einnig þátt þegar leið á mánuðinn. 

Litlu jólin voru haldin 18. desember, að einhverju leyti voru þau frábrugðin hefðum sem hafa verið en dagurinn var samt sem áður mjög notalegur. Allir nemendur grunnskólans voru saman, fengu kökur og kakó og spiluðu bingó. Dagurinn endaði svo á gómsætri jólamáltíð. Ekki var farið á leikskólann til að dansa með nemendum þar en við fréttum af jólasveinunum og fóru nokkrir nemendur og hittu þá úti í bæ þrátt fyrir að vindur blési hressilega. Þeir nemendur sem eru í dægradvöl fóru svo og voru með leikskólanemendum á jólaballinu þeirra. 

4. janúar verður starfsdagur þar sem starfsmenn koma saman og líta yfir farinn veg og gera áætlanir um stefnuna fram á við. Nemendur mæta svo til starfa þriðjudaginn 5. janúar. 

 

Bestu óskir um gleði og gæfuríkt komandi ár

Sunna

 

 

Föstudagsfréttir úr G.Ö. 27. nóvember 2020

Jólaskraut unnið í fab lab
Jólaskraut unnið í fab lab
1 af 10

 

Heil og sæl

Vikan hófst með þemavinnu tengdri kaffihúsinu sem okkur tókst að halda á þriðjudaginn. Yngsta stigið skreytti glugga með húsunum sínum, líkönum af Goðahólnum og ljósmyndasýningu með eigin ljósmyndum en allt þetta tengist þemanu þeirra Flateyrin okkar. Þau voru líka með vísindaglugga. Miðstigið sýndi sjö mínútna myndband þar sem þau sögðu sögu Lagarfljóstormsins, þau sýndu einnig listaverk af Drangajökli og Dynjanda en þau hafa verið að læra um Vestfjarðakjálkann og Austurland. Þau sýndu einnig stjörnukort sem þau bjuggu til með plötu og ljósaseríu. Unglingastigið vann með ljóð og skreytti gluggana sína með ljóðum og myndum. Einng sá unglingastigði um að útbúa allar veitingar og voru þær ekki af verri endanum. 

Í svona vinnu reynir á frumkvæði, sköpun og sjálfstæð vinnubrögð og geftst því gott tækifæri til að meta námið út frá lykilhæfnimarkmiðum Aðalnámskrár. Lykilhæfni er almenn hæfni nemanda óháð námssviðum en er aldurstengd og fléttast inn í alla kennslu og námsmat. 

Allir nemendur lögðu mat á eigið nám. Yngstu nemendurnir fengu þessar þrjár spurningar: 

Hvað lærðir þú af því að vinna þetta verkefni?

Hvað var erfiðast?

Hverju ertu stoltastur af?

Þegar svör þeirra eru skoðuð kemur í ljós að oftast eru þau stoltust af því sem þeim þótti erfiðast sem sýnir þó nokkra seiglu. 

Miðstig og unglingastig mátu frumkvæði, sjálfstæði, áhrif, ábyrgð, færni sína í að gagnrýna og að taka leiðsögn og gagnrýni og hversu góður vinnufélagi þau séu. En allt eru það lykilhæfni þættir. 

Þó sýningin sjálf og hátíðin í kringum hana sé alltaf skemmtileg er það ferlið sem skiptir mestu máli og sá þroski og reynsla sem skapast á leiðinni að markmiðinu. 

Á miðvikudaginn fóru unglingarnir svo á Ísafjörð þar sem Eva kenndi þeim í Fab lab en þær hafa verið að undirbúa sig undanfarna miðvikudaga. Við stefnum á einn miðvikudag á Ísafirði í viðbót fyrir jólin. Það var ýmislegt fallegt sem kom út úr skurðarvélunum, meðal annars jólaskraut. 

Sundkennsla undir stjórn Lísu Sigurðardóttur heldur áfram í næstu viku, á þriðjudag og fimmtudag. 

Bestu kveðjur og góða helgi

Sunna

Kaffihús 24, nóvember og fleiri fréttir

Stjörnuhiminn í mótun
Stjörnuhiminn í mótun
1 af 4

Heil og sæl

Við erum ákveðin í að halda okkar striki og hafa okkar árlega kaffihúsakvöld þó það séu öðruvísi tímar og við þurfum að fara aðrar leiðir en áður. Viðburðurinn verður þriðjudaginn 24. nóvember og hefst klukkan 17:00. 

Nemendur unglingastigs selja veitingar í anddyri frá kl. 17:00- 18:00 og geta gestir notið þeirra meðan þeir skoða verk nemenda í gluggum skólabyggingarinnar.  

Verkin tengjast ýmsu því sem nemendur hafa verið að fást við að undanförnu, Flateyrin okkar, Vestfjarðkjálkinn, Austurland, stjörnuhimininn og ljóð svo eitthvað sé nefnt. 

Annars er bara allt gott að frétta af okkur, það var léttir að taka niður grímurnar á miðstiginu í vikunni og fá að fara í íþróttahúsið. 

Við fáum Lísu Sigurðardóttur til liðs við okkur í næstu viku en hún er í námi í Íþrótta- og heilsufræði MT og ætlar að kenna sund hjá okkur fram að jólafríi. Fyrstu sundtímarnir verða á fimmtudaginn. 

Í næstu viku hefst líka íþróttastarf HSV og verða tímar fyrir 1.-7. bekk strax að loknum skóladegi eða kl 13:20 á þriðjudögum og fimmtudögum. Leiðbeinandi þar verður Hrefna Ásgeirsdóttir og  til að byrja með verður Heiðar Birnir Þorleifsson með henni. 

Meðfylgjandi myndir eru af umdirbúningi fyrir sýninguna sem verður á þriðjudaginn. 

Bestu kveðjur og góða helgi

Sunna

Allt mjakast þetta í rétta átt

Heil og sæl

Nú liggur endanlega fyrir hvernig verður með tilslakanir frá og með morgundeginum, 18. nóvember: 

  • Börn í 5. – 7. bekk grunnskóla verða undanþegin grímuskyldu og 2 metra nálægðartakmörkunum, líkt og yngri börn í grunnskóla og leikskólabörn. Grímuskylda kennara gagnvart þessum börnum verður einnig afnumin. Grímuskylda og nálægðartakmörkun eiga því við milli starfsfólks í leik- og grunnskólum, milli starfsfólks og nemenda í 8.–10. bekk og milli nemenda í 8.–10. bekk.

 

  • Áfram gildir sú regla að ekki mega vera fleiri en 50 nemendur í sama rými í leikskóla og í 1.-4. bekk grunnskóla og ekki fleiri en 25 nemendur í sama rými í 5.-10. bekk grunnskóla.

 

  • Engar kröfur verða gerðar á útisvæðum leik- og grunnskóla sem hindra blöndun hópa, fjöldatakmarkanir, nálægðartakmarkanir eða grímunotkun.

 

  • Íþrótta- og sundkennsla í grunnskólum er heimil með sömu takmörkunum og gilda fyrir annað skólastarf innanhúss að frátalinni grímuskyldu á unglingastigi.  Fjöldatakmarkanir eru þær sömu og í skólastarfinu (25/50)en ekki þarf að viðhalda sömu hópaskiptingu.

 

  • Halda skal sömu hópaskiptingu nemenda í grunnskólastarfi, í félagsmiðstöðvum og á frístundaheimilum þannig að ekki verði blöndun milli nemendahópa.

 

  • Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna á leikskólaaldri er heimilt þó að hámarki 50 börn saman. Ekki þarf að halda sömu hópaskiptingu og er í leikskólastarfi.

 

  • Skipulagt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna á grunnskólaaldri er heimilt, þ.e. að hámarki 50 börn í 1.–4. bekk og að hámarki 25 í 5.–10. bekk. Ekki þarf að halda sömu hópaskiptingu og er í grunnskólastarfi.

 

  • Ekki er gerð nein breyting á greininni um tónlistarskólann í nýrri reglugerð. Þar gildir því áfram 10 manna hámarksfjöldi í rými, 2ja metra nálægðartakmörkun milli nemenda innbyrðis og nemenda og kennara og grímuskylda þar sem við verður komið. Viðhalda þarf sömu hópaskiptingu og í skólastarfi.

Föstudagsfréttir 6. nóvember 2020

Vísindatími á yngsta stiginu
Vísindatími á yngsta stiginu
1 af 4

Nú er fyrsta vikan að baki með þeim hertu aðgerðum sem hófust 3. nóvember s.l. Skólastarfið gengur vel þrátt fyrir allt og fylgja nokkrar myndir hér með sem sýna brot af því sem fengist var við í  vikunni. 

Yngsta og miðstig fengu heimsókn frá Þórunni skólahjúkrunarfræðingi sem ræddi við 4. 5. og 6. bekkinn um kvíða og kenndi þeim að gera núvitundaræfingu og við 1.2. og 3. bekk ræddi hún um tilfinningar, hvernig við upplifum þær og hvað hefur áhrif á það hvernig okkur líður.

8. nóvember ár hvert er baráttudagur gegn einelti og ætlum við að vinna markvisst með samskipti í næstu viku og enda á þvi að gera sýnilegan vegg með okkar sáttmála. Á mið og unglingastigi hófst vinnan í dag með því að nýta verkfæri Uppbyggingarstefnunnar - uppeldi til ábyrgðar. Nemendur greind þá hvaða þörf er þeim mikilvægust en þarfirnar eru fimm; öryggi, en enginn er undanskilinn því að hafa þá þörf. Hinar fjórar eru mis ríkjandi hjá einstaklingum og eru þörfin fyrir að tilheyra, þörf fyrir áhrif, þörf fyrir frelsi og þörf fyrir gleði. Öllum þessum þörfum fylgja ótal góðir kostir. Við getum svo lent í því að fara út fyrir mörkin og uppfylla þörfina á neikvæðan hátt. Við munum halda vinnunni áfram því til að vita hvaða manneskjur við viljum vera þurfum við að geta skilgreint hvaða þarfir það eru sem drífa okkur áfram. Síðnan munum við nota fleiri verkfæri uppbyggingarstefnunnar í framhaldinu með það að markmiði að tryggja góðan skólabrag. 

Hugmyndir að útfærslu fyrir kaffihúsakvöldið voru ræddar og miðast þær við að ekki verði ennþá orðið leyfilegt að taka marga gesti í hús. Við stefnum á að halda dagsetningunni 24. nóvember en græja þetta með þeim hætti sem aðstæður bjóða upp á. Meira um það þegar nær dregur. 

Við förum ótrauð full af bjartsýni inn í næstu viku og vonum að allt verði léttara eftir hana. 

Bestu kveðjur og góða helgi

Sunna

Upplýsingar eftir fyrsta skóladag með hertum aðgerðum

Heil og sæl

Það gekk allt ljómandi vel hjá okkur í dag. Skólinn okkar er eitt sóttvarnarrými sem þýðir að ef það væru eingöngu yngri nemendur í rýminu mættu vera 50 manns en þar sem við erum með eldri nemendur líka miðast fjöldinn við 25 nemendur. Sóttvarnarrými þarf að hafa sérinngang og sér salernisaðstöðu. 

Til að gera enn betur höfum við ákveðið að fækka smitflötum sem allir koma nálægt og skipta salernunum í yngsta stig og mið-og elstastig. Einnig höfum við látið yngsta stigið borða á neðri hæðinni, miðstig við matarborð á efri hæð og unglingastig í sinni stofu. 

Grímunotkun var mikil fyrsta daginn hjá öllum aldurshópum en þar sem rýmið er mjög gott hjá okkur og auðvelt að eiga sinn tveggja metra radíus er hægt að hvíla sig á grímunum og nota þær bara þegar nálægð er meiri. Í byrjun dags var farið vandlega yfir notkun á grímum og hreinlæti í kringum þær. Starfsmenn bera grímur öllum stundum sem þeir eru með nemendum. 

Eins og aðrir fengu yngstu nemendurnir leiðbeiningar um notkun á grímu í morgun. Þau eru þó undanskildir reglum um grímunotkun og er það ekki alveg að ástæðulausu. Þau eiga erfiðara með að láta grímuna vera í friði á andlitinu og endar hún þá gjarnan í höndunum á þeim, rök af andardrætti þeirra og er þá smithættan jafnvel orðin meiri en án grímunnar. 

Embætti landlæknis er að uppfæra leiðbeiningar um hlífðargrímur en þar m.a. að finna þetta: 

  • Þeir sem hafa ekki skilning eða þroska til að nota grímur rétt þurfa ekki að nota grímu (ung börn, þroskahömlun) - röng notkun á grímum getur jafnvel verið verra en að vera án grímu. 

Þetta er eingöngu til að árétta ástæðurnar fyrir því að fallið var frá því að skylda yngstu börnin til að nota grímur. Þau börn sem koma með grímur fá að nota þær og fá leiðbeiningar þar um. 

En eins og áður sagði gekk allt ljómandi vel og við ætlum að klára þetta verkefni með sóma. 

Bestu kveðjur

Sunna

 

 

Til upplýsinga um samkomutakmarkanir og börn

Eftirfarandi skilaboðum var ég beðin að koma til heimilanna: 

Samkomutakmarkanir og börn                                                                                                      Áríðandi skilaboð til foreldra og forráðamanna

Skólar og íþróttafélög skipuleggja sitt fyrirkomulag til að fara eftir fyrirmælum yfirvalda um takmarkanir á skólastarfi og samkomum, þ.m.t. fjöldatakmörkunum, rýmum og grímunotkun. Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

• Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla.

• Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum.

• Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim.

• Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er.

• Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma.

• Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar.

Varðandi heimili með börn þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki:

 Ef börnin hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem eru forsenda þess að hluti heimilisfólks geti verið í sóttkví, þarf allt heimilið að fara í sóttkví eða þeir sem ekki eru í sóttkví að fara annað um leið og sóttkví kemur til. Mögulega gæti annað foreldrið verið í sóttkví með barni en hitt foreldrið haldið fjarlægð. Foreldri með barni í sóttkví þarf ekki að vera skráð í sóttkví og þarf ekki að fara í skimun til að stytta sóttkví í 7 daga úr 14 dögum. Það er nóg að barnið sé skráð í sóttkví og fari í sýnatöku. Þetta á t.d. við leikskólabörn í sóttkví.

 Börn sem hafa þroska og getu til að sinna eigin hreinlæti (t.d. sér salerni) og halda viðeigandi fjarlægð við foreldra (eða aðra) sem eru í sóttkví og eins við skólafélaga geta áfram sinnt námi í skóla. T.d. ef foreldri er í sóttkví gæti leikskólabarn þurft að vera líka í sóttkví en eldra systkini ekki.

 Foreldrar stálpaðra barna í sóttkví eftir útsetningu í skóla eða tómstundum sem geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta sinnt áfram vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki möguleg.