VALMYND ×

Fréttir

Skólahald fer í gang að nýju í fyrramálið

Á morgun föstudag verður leikskólinn opnaður klukkan 8:00 og starf í eðlilegu horfi. Elstu leikskólabörnin mæta beint í leikskólann í stað þess að byrja daginn í grunnskóla eins og venjulega á föstudögum. 

Skóladagurinn í grunnskólanum hefst klukkan 9:00 og mun skipulag dagsins taka mið af atburðum síðustu daga. Með okkur verða Guðrún og Ingibjörg sérfræðingar úr áfallateymi, Kolbrún Fjóla íþróttakennari og Fjölnir prestur.  

Skóladegi grunnskólans lýkur eins og vanalega með því að farið er í hádegismat kl 12:00. 

 

Ekkert skólahald í leik og grunnskóla á morgun fimmtudag 16. janúar

Ekki verður hægt að koma skólahaldi í gang á morgun fimmtudag, hvorki í leik né grunnskóla. Fjöldahjálparstöð er í grunnskólanum. Við tökum einn dag í einu. Efst í huga okkar er þakklæti fyrir að hún Alma okkar fannst tímanlega og aðrir sluppu ómeiddir. 

Skóli og leikskóli lokaðir miðvikudaginn 15. janúar

Í ljósi aðstæðna og þess að almannavarnir ríkislögreglustjóra hafa beðið fólk á Flateyri að halda kyrru fyrir heima að svo stöddu verða bæði leik og grunnskóli lokaðir miðvikudaginn 15. janúar. 

Áframhaldandi óveður

Ennþá er ekkert lát á óveðri. Færðin var orðin þung fyrir smábíla í dag og þurfti aðstoð björgunarsveitar við að koma leikskólabörnum heim. Ég tek stöðuna í fyrramálið útfrá veðri og færð en einnig gæti komið til lokunar vegna tilmæla almannavarna. Tilkynningu um það hvort skólarnir verði opnir verður sett hér inn í fyrramálið.  Þó að við reynum í lengstu lög að hafa opið eru aðstæður til að koma börnum í skólann mismunandi. Ef foreldrar taka ákvörðun um að hafa börn sín heima þá skulu þeir tilkynna viðkomandi skóla um það og er litið á sklíkt sem eðlileg forföll. 

Símanúmer grunnskóla 450 8360

Símanúmer leikskóla 450 8260

Símanúmer skólastjóra 849 3446

Morgundagurinn, mánudagur 13. janúar 2020

Heil og sæl

Á morgun mánudag er mánaðarlegur starfsmannafundur í leikskólanum og opnar hann því kl 10:00. 

Gul viðvörun vegna veðurs verður ennþá í gildi í fyrramálið og eru foreldrar hvattir til að fylgjast með veðurspá og fréttum af veðri og meta hvort aðstæður bjóða upp á að koma barni í leik eða grunnskóla. Færð innanbæjar gæti einnig valdið röskun á starfi skólanna. Ef foreldrar taka ákvörðun um að hafa börn sín heima þá skulu þeir tilkynna viðkomandi skóla um það og er litið á sklíkt sem eðlileg forföll. Skóla verður ekki aflýst nema tilmæli komi frá Almannavörnum eða lögreglu og ef til þess kemur verður skilaboðum komið við fyrsta tækifæri. 

Skólahald í dag með eðlilegum hætti

Heil og sæl

Bæði leik og grunnskóli verða opnir í dag og ætti skólahald að geta verið með eðlilegum hætti. Flestar götur innanbæjar eru orðnar færar. 

Gleðilegt ár

Kæru nemendur og foreldrar

Bestu óskir um að árið 2020 verði ykkur gleði og gæfuríkt. Starf leikskólans er komið á fullt að loknu jólafríi en í grunnskólanum verður starfsdagur mánudaginn 6. janúar og hefst kennsla svo samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 7. janúar. Stundaskrá nemenda verður óbreytt frá því sem var fyrir áramótin. 

Mánaðarlegur starfsmannafundur leikskólans verður mánudaginn 13. janúar og opnar leikskólinn þá klukkan 10. Starfsdagur verður mánudaginn 27. janúar en þann dag ætla starfsmenn meðal annars að kynna sér starf á heilsuleikskóla. Á starfsdegi er leikskólinn lokaður allan daginn. 

Á leikskólanum höfum við fengið nýtt starfsfólk til liðs við okkur en Jóhanna Maggý Kristjánsdóttir sem er menntaður þroskaþjálfi hóf störf sem deildarstjóri í byrjun desember og nú í byrjun janúar hóf Hrefna Ásgeirsdottir störf í afleysingum vegna fæðingarorlofs. Báðar hafa þær meðal annars áhuga á útivist og hreyfingu og nýtast þeir kraftar vel í starfinu. 

Við förum inn í nýtt ár full af krafti og þori í leik og grunnskóla á Flateyri. 

Jólin nálgast

Nú líður að jólafríi í grunnskólanum og kemur hér smá frétt af fyrirkomulagi næstu daga í leik- og grunnskóla. 

Á morgun miðvikudag ætla nemendur grunnskólans að baka smákökur fyrir litlu jólin og jafnvel hita kakó og baka brauð úti. 

Á föstudaginn verða svo ,,litlu jólin" og hefst sá dagur með samveru leik- og grunnskólanemenda. Skólahópur mætir þá beint í leikskólann og koma svo grunnskólanemendur þangað um klukkan 9. Jólaballið verður svo haldið snemma morguns að þessu sinni og hefst kl 9:15. Það er von okkar að jólasveinarnir séu árrisulir og kíki við hjá okkur. Að loknu jólaballi halda grunnskólanemendur ásamt skólahóp í grunnskólann þar sem ,,litlu jólin" verða. Þá verða smákökurnar borðaðar og drukkið heitt súkkulaði. Nánara fyrirkomulag litlu jóla er í höndum nemenda og umsjónarkennara. Hátíðarmáltíð verður svo snædd, leikskólabörn og starfsmenn fá sinn mat á leikskólann en skólahópur, grunnskólanemendur og starfsnenn grunnskóla snæða sína máltíð í Gunnukaffi. Að máltíð lokinni eru grunnskólanemendur komnir í jólafrí. Dægradvöl er ekki opin þennan dag. Leikskólinn er opinn alla virka daga, þ.e. Þorláksmessu, föstudaginn 27. desember og mánudaginn 30. desember. Á aðfangadag og gamlársdag er leikskólinn lokaður. Foreldrar eru beðnir að skrá börn sín í leyfi á þar til gerðu blaði sem hangir í anddyri leikskólans ef fyrirséð er að þau mæti ekki í leikskóla á milli jóla og nýárs. 

 

Með ósk um gleðilega hátíð.  

Jólakortadagur -opið hús föstudaginn 13. desember

Á morgun föstudag ætlum við í grunnskólanum að búa til jólakort og skrifa í þau jólakveðjur til skólafélaganna. Við bjóðum bæjarbúum að koma við hjá okkur með sín kort eða kortaefni og eiga notalega stund við jólakveðjuskrif. Við verðum líka með eitthvað af efniviði til að vinna úr og hugmyndir. Hægt er að líta við hjá okkur milli klukkan 8:15 og 12:00.

Miðvikudagur 11. des

Miðað við veðurspá ætti veðrið að geta verið gengið niður í fyrramálið. Ég geri því ráð fyrir skólahaldi bæði í leik og grunnskóla. Ef foreldrar taka ákvörðun um að hafa börn heima vegna veðurs eða færðar minni ég á að koma skilaboðum í skólann í síma 450 8360, leikskóla  450 8260 eða netfang kristbjorgre@isafjordur.is.