VALMYND ×

Fréttir

Hrekkjavökuhátíð

1 af 4

Í gær á Hrekkjavökunni héldu skólarnir á Suðureyrir, Flateyri og Þingeyri uppskeruhátíð. Við erum búin að vinna í þemaverkefni tengt Hrekkjavöku síðan í september. Nemendur voru búnir að gera  stuttmyndir, sögu, búninga og skreytingar fyrir hátíðina. Einnig voru þeir búnir að búa til allskonar bakkelsi sem boðið var upp á s.s. hrekkjavökumuffins, fingur, pylsubita í felum, kókóskúlur og popp. Stuttmyndir voru sýndar og dansað. Þetta heppnaðist mjög vel og allir skemmtu sér konunglega. 

Næsta verkefni okkar hefst síðan í nóvember en það er verkefnið Bókin mín. 

Samstarfsverkefni

Nemendur og kennarar eru á fullu í vinnu með hrekkjavökuþemað og er virkilega gaman að fylgjast með krafti þeirra og sköpun í þessu verkefni. Þemað er hluti af samstarfsverkefni okkar fámennu skólanna þar sem markmiðið er m.a. að efla teymiskennslu og samstarf skólanna.

Hérna fyrir neðan er hlekkur með nánari upplýsingum um verkefnið.

 Samstarfsverkefni

Verkefninu lýkur með hrekkjavökuskemmtun í Félagsheimilinu á Suðureyri þann 31. október. Nemendur verða allir í heima/skólagerðum búningum og hafa verið á fullu að skapa sína eigin búninga þar sem lögð er áhersla á endurnýtingu og sjálfbærni. Frábært að sjá samvinnuna, hugmyndaflugið og útsjónarsemina hjá þeim.

Við erum afar stolt af nemendum fyrir að taka þátt af áhuga og gleði og sjáum góðan árangur í vinnubrögðum þeirra og sköpun.

Að lokum er gaman að segja frá því að yngsta stigið er komið í 21. öldina og hefur fengið tússtöflu (í stað gömlu krítartöflunnar) og sjónvarp í stofuna sína. Elsta stigið og Viktor sáu um uppsetninguna að beiðni húsvarðar (Jónu). Aldeilis flott að vera með svona öflugt lið skólanum sem er tilbúið að ganga í öll verk.

Skólastarfið

1 af 4

Fjölbreytt og skemmtileg vika er á enda.
Á þriðjudaginn fengum við heimsókn frá kennurum frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Sú heimsókn er liður í Nordplus verkefni sem skólinn tekur þátt í. https://gron.isafjordur.is/skolinn/nordplus/

Þeir skoðuðu skólann og aðstæður til náms og kennslu bæði innan og utan dyra. Síðan var farið í göngutúr um bæinn þar sem gestirnir fræddust um ýmislegt tengt Flateyri. Þetta var frábær upplifun fyrir nemendur og kennara að fá að deila sínum venjum og umhverfi með erlendum gestum.

Sérstaka athygli vakti hjólabrautin sem þeir Kristján og Kamil hafa verið að hanna og búa til. Heilmikil vinna sem þeir hafa lagt í þetta verkefni og hvet ég alla til að gera sér ferð á hjólinu sínu, en brautin er staðsett fyrir neðan varnargarðinn bakvið Goðahól. Nemendur fá einnig tækifæri til að lagfæra og ditta að hjólunum sínum og var það eitt af verkefnum vikunnar.

Nemendum á yngsta stigi var boðið á sögulestur í leikskólanum í morgun, þar las Elfar Logi bókina sína: Matti litli - Sagan af drengnum með breiða nefið.

Nemendur á yngsta stigi unnu að sameiginlegri sögugerð í vikunni í samstarfi við nemendur á Suðureyri og Þingeyri. Á mið- og unglingastigi hefur handritagerð verið í fullum gangi í tengslum við hrekkjavökuþemað. Skemmtilegir hlutir eru að gerast í þessu verkefni, og við hlökkum til að sjá útkomuna.

Skólavinir - vinaliðaverkefni
Hérna í skólanum höfum við sett á fót verkefni sem við köllum Skólavinir. Fyrirmynd þessa verkefnis er frá verkefni sem heitir Vinaliðar en verkefnið hefur það að markmiði að stuðla að jákvæðri afþreyingu í frímínútum. https://gron.isafjordur.is/skolinn/skolavinir/ 

 

Góða helgi til ykkar

Fyrstu skólavikurnar

1 af 4

Fyrstu skólavikurnar hafa gengið vel og við höfum haft fjölbreytt verkefni í gangi.

Fyrstu vikuna eyddum við miklum tíma utandyra þar sem nemendur skoðuðu fjöruna, heimsóttu Sunnu á Bryggjukaffi, skoðuðu listaverk og fóru í berjamó. Við höfum verið að sanka að okkur timbri og höfum verið að vinna úr því síðustu vikurnar. Fengum m.a. góða sendingu frá Sighvati, garðyrkjufulltrúa Ísafjarðarbæjar, en hann var að grisja tré og runna hérna á Flateyri.

Þemað næstu vikurnar er hrekkjavaka þar sem nemendur munu læra um drauga og annað skemmtilegt tengt hátíðinni. Þau eru m.a. byrjuð að semja hryllilega tónlist fyrir hrekkjavökuhátíðina sem við áætlum að halda í lok október. Markmið verkefnisins eru að m.a. að þjálfa sjálfstæði, skapandi vinnubrögð, efla tungumálakunnáttu og styrkja samheldni í hópnum.

Þetta er liður í samþættu verkefni sem unnið er í samvinnu við Grunnskólana á Þingeyri og Suðureyri undir umsjón Ásgarðs skólaráðgjafar. Verkefninu er ætlað að þróa teymiskennslu þvert á skólana þrjá.

Í síðustu viku rannsökuðum við kóngasvarm (fiðrildið) og í þessari viku fengum við óvænt háf í skólann sem leiddi til skemmtilegs og lærdómsríks verkefnis.

Lestur hefur verið í brennidepli, og við hvetjum öll börn til heimalesturs til að efla lestrarfærni og ímyndunarafl

Með góðum kveðjum til ykkar allra

Jóna Lára

Skólasetning

Kæru nemendur, foreldrar og forráðamenn.

Þá er komið að því sem þið hafið beðið eftir í allt sumar.....

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar fer fram í sal skólans fimmtudaginn 22. ágúst 2024 kl 10:00.

Að lokinni setningarathöfn verður starf vetrarins kynnt. Fyrirkomulagið verður þannig að Siggi og Sigga Anna byrja á því að ræða við nemendur og foreldra á eldra stiginu og á meðan fær yngra stigið og foreldrar þeirra að gæða sér á smá góðgæti og síðan verður skipt.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá föstudaginn 23. ágúst og opnar dægradvöl sama dag að skóladegi loknum. 

Við förum full tilhlökkunar inn í nýtt skólaár. 

Starfsfólk Grunnskóla Önundarfjarðar. 

Fréttir af gjaldskrárbreytingum og fleiru

Samþykkt hefur verið í bæjarstjórn að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir nemendur í grunnskólum Ísafjarðarbæjar á komandi skólaári. Jafnframt verða foreldrar ekki rukkaðir fyrir hressingu fyrir börn í dægradvöl. Ekki verður í boði að vera í mjólkur eða ávaxtaáskrift en hafragrautur verður áfram í boði. 

 

Skóladagatal næsta skólaárs er komið inn á heimsíðuna undir flipanum Grunnskóli 

 

Íþróttahátíð fámennu skólanna- Fjölgreindaleikar

Ritunarstöð
Ritunarstöð
1 af 7

Fimmtudaginn 16. maí var hin árlega íþróttahátíð fámennu skólanna á Norðanverðum Vestfjörðum haldin og var nú komið að okkur að bjóða heim og halda utan um skipulagið. Við ákváðum að hafa hátíðina í anda fjölgreindarleika þar sem reyndi á hina ýmsu hæfni. Fjölgreindirnar eru að minnsta kosti átta; málgreind, tónlistargreind, rök- og stærðfræðigreind, rýmisgreind, líkams-og hreyfigreind, samskiptagreind, sjálfsþekkingargreind og umhverfisgreind. Stillt var upp á sjö stöðvum og var þar meðal annars æfð samvinna, snerpa og samhæfing, kubb, golf, myndlist og ritun og má segja að komið hafi verið inn á flestar fjölgreindanna með einhverjum hætti. Það voru yfir 70 nemendur úr 1. - 7. bekk á Þingeyri, Suðureyri, Súðavík og Flateyri sem tóku þátt í leikunum og einning voru fjórir nemendur úr 8. bekk með en þau sáu um að taka á móti hópunum á stöðvum. 

Eftir að fara á allar stöðvarnar fóru svo öll saman í sund og að lokum var boðið upp á grillaðar pylsur áður en gestirnir héldu heim á leið. Dagurinn tókst ljómandi vel

Rýmingaræfing

Eitt af því sem þarf að gera reglulega er að æfa rýmingu skólans og var það gert í samvinnu við slökkviliðsmenn á Flateyri þann 6. maí. Við æfðum rýminguna tvisvar, annars vegar þegar allir nemendur voru í sínum stofum og fóru út um þann útgang sem næstur var, þ.e. yngir nemendur komust út um aðalinngang en eldri nemendur sem eru á efri hæðinni æfðu sig að fara niður brunastigann á svölunum. Sú rýming gekk fumlaust á vel innan við tveimur mínútum. Seinni rýmingin var æfð þannig að öll vorum við stödd á efri hæðinni og engin leið önnur en fara öll um brunastigann. Sú rýming reyndi meira á en öll fórum við niður að lokum með hvatningu og aðstoð. 

Púkafrétt,

Unnið við að setja texta við viðtal
Unnið við að setja texta við viðtal
1 af 2

Púkafrétt

 

Barnamenningarhátíð Vestfjarða Púkinn stendur nú yfir. Við í Grunnskóla Önundarfjarðar erum búin að taka viðtöl við Flateyringa og einn bónda í Önundarfirði til að leita að svari við spurningunni ,,Hvers vegna búum við hér“ sem er yfirskrift Púkans að þessu sinni. Við byrjuðum á því að taka ákvörðun um hvernig verkefni við vildum vinna í vikunni. Niðurstaðan var að gera myndband með viðtölum. Síðan sömdum við spurningarnar sem við vildum fá svör við. Við reyndum að finna ólíka viðmælendur, úr Grunnskóla Önundarfjarðar, úr Lýðskólanum, úr fjölskyldum okkar og aðra úr samfélaginu okkar.

Nemendur lærðu ýmislegt nýtt. Til dæmis að beina myndavélinni að þeim sem var að tala. Þau lærðu einnig á forritið cap cut sem er til að klippa myndbönd. Þau tóku upp á mörg tæki og þurftu svo að senda og safna á eitt tæki. Það þurfti mikla þolinmæði við að setja texta við öll viðtölin. Mesta áskorunin var að æfa sig að tala við fólk úr samfélaginu. Sum nefndu að það hafi verið dálítið erfitt að hafa úthald til að einbeita sér að verkefninu. Nemendur höfðu gaman að verkefninu og stóð þar upp úr að semja spurningarnar, taka viðtölin og þegar þau fengu einn viðmælandann til að leita að símanúmerum fyrir sig.

Það er ýmislegt gott við að búa á Flateyri og í Önundarfirði og sennilega erum við hér þess vegna. Þorpið er lítið. Hér eru engar biðraðir. Hér finnum við fyrir öryggi. Hér erum við nálægt náttúrunni, stutt í fjöruna og skóginn. Klofningur er merkilegur klettur og Holtsfjaran er æði. Það er hægt að labba ofan á A-inu. Hér höfum við leikskóla, grunnskóla og lýðskóla. Það er stutt í næstu bæjarkjarna. Við höfum frisbígolfvöll, körfuboltavöll, sparkvöll, leikvöll, ærslabelg, hjólabraut, skautasvell, sundlaug, íþróttahús, verslun, kaffihús, veitingastaði, skrifstofuhótel og bensínstöð. Hér höfum við líka skemmtilegt fólk og gæludýr.

Og svo er G.Ö. langbesti skólinn.

Púkakveðja frá nemendum Grunnskóla Önundarfjarðar

Árshátíðin að baki og páskafríið framundan

Leikritið Draugalega fótboltaferðalagið
Leikritið Draugalega fótboltaferðalagið
1 af 9

Á miðvikudaginn tókst okkur að halda árshátíðina okkar á milli vetrarlægða sem hafa sett strik í reikninginn í vikunni. Tókst hátíðin frábærlega vel. Mía í öðrum bekk samdi leikrit og fékk svo Izu í 4. bekk til að gerast meðhöfundur og leggja með henni lokahönd á handritið. Leikritið heitir Draugalega fótboltaferðalagið. Allir nemendur yngsta stigs léku eða sáu um að allt gengi upp á sviðinu en fengu einnig eldri nemendurna til að taka að sér hlutverk. Yngri nemendurnir sýndu einnig myndband sem sýndi hefðir og helgidaga sem þau hafa verið að læra um og fengu gesti til að giska á hvað væri um að ræða hverju sinni. Eldri nemendurnir gerðu grín að starfsfólki í myndbandi, léku pabba sína segja pabbabrandara á sviðinu, sáu um kynningu og leiki. Foreldrafélagið hélt uppteknum hætti og sá um að borð svignuðu af girnilegum veitingum. 

Á mánudag og fimmtudag var appelsínugul viðvörun vegna veðurs sem hafði ekki teljandi áhrif á skólastarf fyrri daginn en í gær var veðrið heldur verra og meiri snjór búinn að safnast fyrir svo þau fáu sem mættu nutu öðruvísi skóladags þar sem gengið var frá eftir árshátíð, mikið var spilað og horft á mynd. Í dag voru svo öll mætt á ný og við lásum, skrifuðum saman ævintýri, föndruðum páskaskraut, leituðum að páskaeggjum um skólann og lásum málshættina saman. 

Nú erum við farin í páskafrí og mætum aftur til starfa þriðjudaginn 2. apríl. 

Gleðilega páska.