Skólaslit
Skólaslit skólans okkar verða á morgun þriðjudaginn 3. júní kl 17:00. Verða þau með hátíðlegum brag og boðið upp á kaffi og köku. Hlökkum til að sjá ykkur.
Skólaslit skólans okkar verða á morgun þriðjudaginn 3. júní kl 17:00. Verða þau með hátíðlegum brag og boðið upp á kaffi og köku. Hlökkum til að sjá ykkur.
Vel heppnuðu skólaþingi lokið og mikið agalega var ég stolt af mínu fólki.
Betri heimabyggð –Skapandi nemendur með skoðanir á nærumhverfi sínu.
Síðasta þemaverkefni þessa skólaárs var verkefni sem bar yfirheitið Betri heimabyggð.
Nemendurnir byrjuðu á því að kynna sér nærumhverfi sitt og tóku myndir af því sem þeim fannst gott og hvað mætti betur fara. Þau áttu síðan að láta sig dreyma um það hvernig mætti bæta þorpið þeirra - hvað fannst þeim vanta á Flateyri.
Þeir skrifuðu texta við myndirnar, bjuggu til líkön af hugmyndum sínum og notuðu til þess endurnýtanlegt efni. Í lok verkefnisins buðu þau foreldrum, sviðstjóra skóla- og tómstundasviðs, bæjarstjóra, bæjarstjórn og Hverfaráði Önundarfjarðar á skólaþing þar sem þau kynntu niðurstöður sínar og hugmyndir að úrbótum.
Verkefnið styrkti margvíslega færni nemenda – tjáningu, skapandi hugsun, samvinnu, gagnrýna hugsun og lýðræðislega þátttöku. Skólaþingið var afar vel heppnað og er gaman að segja frá því að strax sama dag bárust þær fréttir að búið væri að laga göngustíg sem nemendur höfðu einmitt tekið mynd af – eitthvað sem mætti betur fara. Gaman fyrir nemendur að sjá að þau geti haft áhrif í samfélaginu (þrátt fyrir að í þessu tilfelli hafi þetta trúlega verið mjög skemmtileg tilviljun).
Það hefur verið aðeins um uppbrot þessa vikuna eins og gengur og gerist í maí. Hin árlega sólarganga leikskólans Grænagarð og grunnskólans var farin núna 7. maí í ekta íslensku vorveðri. Það var frekar hvasst og rigndi aðeins á okkur en auðvitað lét sólin líka sjá sig. Að venju voru öll full jákvæðni og enduðum við gönguna á pylsupartýi í leikskólanum.
Á fimmtudaginn bauð Þjóleikhúsið miðstigi grunnskólanna á leiksýningu byggða á hinum geysivinsælu bókum um Orra óstöðvandi og vinkonu hans Möggu Messi eftir Bjarna Fritzson.
https://leikhusid.is/syningar/orri-ostodvandi/
Í dag fóru Sigga og Siggi með nemendurna í gönguferð inní skóg. Þau voru búin að nesta sig fyrir ferðina með skólabökuðum pizzasnúðum og swiss miss. Veðurspáin var nú ekkert frábært og snjóaði allsvakalega á okkur í morgun en bæði nemendur og kennarar komu mjög vel búin og jákvæð í skólann í morgun og tilbúin í þessa gönguferð. Þau komu öll kampakát en smá blaut til baka en það er rétt sem sagt er - Það er ekki til vont veður – bara óviðeigandi klæðnaður!
Síðasta þemaverkefni þessa skólaárs heitir Betri heimabyggð. Nemendur kynntu sér nærumhverfið sitt, tóku myndir og ræddu kosti og galla samfélagsins í kringum sig. Þau áttu síðan að láta sig dreyma um það hvernig mætti bæta þorpið þeirra, hvað fannst þeim vanta á Flateyri. Þau eru núna í óða önn að klára líkönin af því sem þeim fannst vanta og eiga svo að rökstyðja hugmyndina sína með texta. Verkefninu lýkur með skólaþingi þar sem nemendur bjóða bæjar- eða sveitastjórn að hlýða á hugmyndir sínar um að bæta samfélagið.
Njótið helgarinnar
Árshátíð skólans var núna 9. apríl og stóðu krakkarnir sig frábærlega vel. Þau voru búin að leggja á sig mikla vinnu og uppskáru heldur betur eins og þau sáðu, mikil ánægja og fengu þau mikið og verðskuldað hrós.
Nemendur á miðstigi sendu einnig inn hugmyndir sínar í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Annarsvegar „Veiðihjólastand “ og hinsvegar „Kattaferðastand“. Hugmyndin verður þróuð áfram í samstarfi við FabLab og aldrei að vita nema að þið sjáið auglýstar vörur til sölu innan skamms.
Barnamenningarhátíðin Púkinn var þessa vikuna og sóttu nemendur GÖ viðburði tengda henni.
Leikkonan Birgitta Birgisdóttir bauð nemendum á miðstigi í öfluga og skapandi leiklistarsmiðju, þar sem unnið var eftir aðferðum Theatre of the Oppressed. Í smiðjunni fengu nemendur að kanna eigin rödd, tjá sig í gegnum leiklist og takast á við raunveruleg viðfangsefni á kraftmikinn og skapandi hátt.
Frach bræður komu í Flateyrarkirkju með tónleikadagskrána Árstíðir fyrir nemendur frá Flateyri og Þingeyri. Mögnuð upplifun fyrir krakkana sem spiluðu Vivaldi hérna í morgunsárið og rifjuðu upp góða takta hjá bræðrunum. Topp fyrirmyndir.
Í byrjun mars tóku unglingastigin úr grunnskólunum á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri þátt í Krakkar Filma! námskeiði UngRIFF. Þau unnu fimm stuttmyndir byggðar á vestfirskum þjóðsögum undir handleiðslu leikstjórans Erlings Óttars Thoroddsen. Nemendur GÖ fengu að sjá afraksturinn í dag og vöktu þær mikla lukku og voru þau mjög áhugasöm.
Síðasti dagur fyrir páskafrí var óhefðbundinn – páskaföndur – 52 spil – borðspil – píla – fótbolti og síðast en ekki síst PÁSKAEGGJALEIT. Í dægradvöl hélt þessi notalega setmmning áfram með poppi og bíómynd.
Góða páska til ykkar allra
Í vikunni barst skólanum vegleg bókagjöf frá Sjón og Bókmenntahátíð Flateyrar 2025.
Bókmenntahátíð Flateyrar varð til í hjarta Karíba, sjálfstæðs forlags með aðsetur á Flateyri. Hugmyndin að þessari hátíð er að færa rithöfunda og lesendur saman í afskekkta þorpinu Flateyri, sem er staðsett í hinum stórbrotna Önundarfirði. Hátíðin var í fjóra daga þar sem bókmenntum og fjölbreytileika var fagnað með fjölbreyttri dagskrá fyrir börn og fullorðna.
Við í skólanum erum auðvitað afar þakklát fyrir þessa góðu gjöf enda mikilvægt að vera með fjölbreytt bókaúrval í skólanum.
Auk þeirra gaf Sindri Sparkle okkur bókina sína "Room for Everyone" Saga hinsegin fánans.
Við þökkum Sjón, Bókmenntahátíð Flateyrar (Helen Hafgnýr Cova) og Sindra kærlega fyrir
Þessa stundina er undirbúningur fyrir árshátíðina í fullum gangi. Verið er að gera leikmuni út um allan skóla og er mikil tilhlökkun hjá nemendunum. Árshátíðin verður 9. apríl næstkomandi og munum við senda út auglýsingu innan skamms.
Landsmótið í skólaskák fer fram á Ísafirði 3.-4. maí nk. Kjördæmamótin fara nú fram hvert eftir öðru. Vikuna 17. – 21. mars fór fram, í Grunnskóla Önundarfjarðar og Grunnskólanum á Ísafirði, velheppnað Vestfjarðarmót í skólaskák og vorum við í GÖ með 8 keppendur af 19 á þessu móti. Þrátt fyrir að hafa ekki náð sigri á mótinu, að þessu sinni, stóðu nemendurnir sig mjög vel og koma reynslunni ríkari af þessu móti og hlökkum við mikið til næsta skákmóts.
Vel heppnuðu Vestfjardarmóti í skólaskák lokið
Eins og Flateyringar og nágrannar hafa margir tekið eftir þá hafa átt sér stað upptökur á sjónvarpsþáttaséríu eftir bókinni Hildur eftir Satu Rämü. Nemendur og starfsfólk GÖ var svo heppið að fá tækifæri til að vera aukaleikarar í einni senu og verður spennandi að horfa á okkur sjálf sig í sjónvarpinu von bráðar.
Í síðustu viku var Bókmenntahátíðin á Flateyri og fékk grunnskólinn að taka þátt í henni. Nemendurnir voru mjög áhugasöm og spurðu margra skemmtilegra spurninga. Á fimmtudeginum komu Helen Cova, Tess Rivarola og Sindri Sparkle til okkar. Helen ræddi við þau hvernig við getum séð sjálfan rithöfundinn í verkum sínum, Sindri Sparkle ræddi um fjölbreytileikann og bókina Kvár eftir Elías Rúni og Tess kom með bókaverkið sitt ”Mismunandi líf. 7 gautur”, en það er lifandi bók sem hægt er að leika sér með.
Á föstudeginum komu grunnskólarnir á Suðureyri og Þingeyri í heimsókn og fengum við að heyra í tveim rithöfundum, þeim Elísabetu Thoroddsen og Bergrúni Írisi. Elísabet las upp úr bók sinni Rugluskógur en hún kemur út í maí. Við vorum fyrst til að heyra lesið upp úr þessari bók sem var mjög skemmtileg. Bergrún Íris sagði okkur frá sjálfri sér og hvað hún gerir. Las síðan upp úr bók sinni Kennarinn sem hvarf. Nemendur fengu að spyrja þær spurninga. Báðar voru þær með hugmyndir af nýjum bókum sem þær eru að fara að skrifa.
Rithöfundarnir fengu frábærar móttökur og við megum vera stolt af öllu okkar unga fólki! Helen Hafgnýr Cova fær sérstakar þakkir fyrir að skipuleggja þessa glæsilegu hátíð og leyfa okkur að taka þátt. Helen er einmitt starfsmaður hjá okkur í dægradvöl og vinnur frábært starf þar.
Skólastarfið gengur vel og er gaman að heyra og sjá hvað nemendurnir eru ánægðir með veðurfarið þrátt fyrir að finnast snjórinn og frostið líka vera æði :)
Við erum byrjuð að forrækta grænmeti og sumarblóm og von bráðar verða allir gluggar fullir af litlum plöntum sem vaxa allt of hratt :) Vonandi verður veðrið eftir páska eins gott og núna en þá stefnum við á að færa plönturnar út í gróðurkassana.
Íþróttirnar hafa, einhverju leyti, færst út og fá nemendur nú kennslu í frisbígolfi. Við eigum þennan flotta frisbígolfvöll og sýna nemendur mjög góða takta.
Þegar veðrið skartar sínu fegursta stækkar skólastofan. Nemendur á yngsta stigi fóru í fjöruna og tóku stafamottuna með sér. K-fyrir kött en það er spurning hvort að köturinn hafi skilið verkefnið og setið kjurr á sínum staf.
Vestfjarðarmótið í skák er á morgun og sendum við í GÖ auðvitað alla þá nemendur, sem vilja, af stað í þá keppni. Þau hafa verið að æfa sig á skákreglunum og að tefla með klukku. Ég sit með hjartað í buxunum af spenningi þegar þau hafa verið að taka æfingaskákir svo mikil er einbeitingin, hraðinn og spennan.
Mið- og unglingastig er þessa dagana að vinna að nýsköpunar- og hönnunarverkefni í samvinnu við Fab Lab. Miðstigið stefnir á að senda sínar hugmyndir og afurðir í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Þetta er afar spennandi verkefni og aldrei að vita nema það verði til vara eða hönnun sem hægt verður að sýna á árshátíðinni sem verður 9. apríl.
Undirbúningur fyrir árshátíðina er hafinn og þemað í ár verður brúðuleikhús. Eins og fyrri ár er árshátíðin algjörlega skipulögð af nemendunum með stuðningi frá kennurum. Að þessu sinni fengum við liðsauka úr nærsamfélaginu okkar en hann Juraj Hubinak kom til okkar með innblástur og fræðslu um brúðuleikhús, auk þess sem hann sýndi okkur mismunandi tegundir brúða. Juraj er HÁmenntaður á þessu sviði og erum við mjög heppin að fá hann til liðs við okkur. Krakkarnir eru afar spenntir og hlakkar mikið til árshátíðarinnar.
Í síðustu viku tóku unglingastigin úr grunnskólunum á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri þátt í Krakkar Filma! Námskeiði á vegum UngRIFF. Þau unnu fimm stuttmyndir byggðar á vestfirskum þjóðsögum undir handleiðslu leikstjórans Erlings Óttars Thoroddsen. Afraksturinn verður sýndur á Barnamenningarhátíð Vestfjarða sem fer fram dagana 31. mars - 11. apríl. Námskeiðið tókst mjög vel og fengu krakkarnir mikið hrós frá leikstjóranum. Hér fyrir neðan er hlekkur á dagskrá Púkans þar sem hægt er að sjá nánari upplýsingar:
https://www.vestfirdir.is/is/verkefni/menning/pukinn/pukinn-vidburdir
Bókmenntahátíð Flateyrar, sem Helen skipuleggur, verður haldin helgina 27. - 30. mars. Við grunnskólanum tökum þátt í þeirri hátíð og hvetjum við ykkur til þess að skoða dagskrána og taka þátt í þeim viðburðum sem eru í boði.
Í dag lauk lestrarátaki skólans eftir frábærar vikur af lestri, gleði og metnaði! Nemendur hafa sýnt mikinn áhuga, staðfestu og hafa náð heilmiklum framförum í bæði lestri og lesskilningi. Gaman að heyra þau hlæja að því sem þau lesa :)
Við viljum þakka ykkur kærlega fyrir stuðninginn heima – samvinna heimilis og skóla skiptir sköpum fyrir lestrarnám barnanna. Hvetjum ykkur til að halda áfram að lesa með þeim heima.
Þrátt fyrir að lestrarátakinu sé lokið ætla nemendur að halda áfram að safna í lestrarorminn góða, þar sem markmiðið er að hann nái alla leið upp í kennslustofuna á efri hæð!
Til að fagna öllum þessum lestrarmetnaði eru nemendur nú að njóta - kósýheit, bangsar, Harry Potter, popp og djús.
Á sama tíma er spennandi nýtt verkefni að hefjast í skólanum undir yfirskriftinni Tækni, þar sem nemendur fá tækifæri til að vinna með sköpun, lausnaleit og tækni á fjölbreyttan hátt. Frétt um það í næstu viku.
Góða helgi
Jóna Lára
Skólinn styður nemendur í að taka virkan þátt í eigin námi með því að bjóða upp á valáfanga sem byggja á áhugasviði nemenda.
Með því að leggja áherslu á val og áhugasvið í námi fá nemendur tækifæri til að styrkja sjálfsmynd sína og byggja upp trú á eigin getu. Þeir læra að taka ábyrgð á eigin námi, finna leiðir til að vinna með áskoranir og þróa færni sem nýtist þeim í framtíðinni.
Það er því ljóst að val skiptir máli – bæði fyrir námsgleði og betri árangur!
Síðustu vikur hafa nemendur á mið- og unglingastigi unnið út frá eigin áhugasviði og sýnt mikinn metnað við vinnu sína.
Afraksturinn verður m.a. - uppskriftabók GÖ - upphífingaslá - stýripinnastandur - borðspil - starfsmannaplakat - prjónuð húfa
Í hringekjutímunum hafa nemendur verið að binda inn sína eigin bók - þetta er partur af samvinnuverkefni fámennu skólanna og Ágarðs. Verkefnið heitir Bókin mín og auk þess að binda inn sína eigin bók var m.a. unnið með sögu- og ljóðagerð (hægt að lesa í gluggum skólans).
Metnaðarfullt og skapandi starf hérna í GÖ með leiðandi starfsfólki í fararbroddi