VALMYND ×

Fréttir

Föstudagsfréttir úr G.Ö.

Nemendur í lestarferð á nýju stólunum.
Nemendur í lestarferð á nýju stólunum.
1 af 2

Það hefur margt áunnist í skapandi skólastarfi grunnskólans þessa vikuna. 

Yngsta stigið hefur unnið áfram að verkefni um Goðahól og hlakka þau mikið til að geta sýnt  afraksturinn.

Allir nemendur skólans fóru í lesfimipróf í vikunni og strákarnir í 4. bekk tóku samræmd próf í íslensku og stærðfræði. 


Unglingastigið er búið að teikna Vestfjarðakjálkann upp á vegg og verður hann nýttur til ýmissa verkefna á öllum skólastigum. Unglingarnir eru að vinna stórt verkefni þar sem Vestfirðir eru ígrundaðir sem ferðamannaparadís og eru nemendur að gera kynningu á því. Verkefnið er samþætt inn í samfélagsfræði, íslensku, ensku og dönsku. Miðstigið er að  að merkja inn á kortið staðsetningar, bæjarnöfn og fjarðanöfn. Mikilvægt er að nemendur þekki sitt nærumhverfi og er þetta liður í því. 

Í handmennt er verið að vinna að þæfingu og munu þau listaverk fljólega skreyta glugga skólahússins. 

Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, kom í heimsókn til okkar á miðvikudaginn og átti gott spjall við nemendur á unglingastigi. Nemendur höfðu einnig hitt hann á Ísafirði á þriðjudaginn og fengu þess vegna að hafa talsverð áhrif á umræðuefnið á miðvikudeginum. Verkefni Þorgríms ber yfirskriftina ,,Verum ástfangin af lífinu" en þar leggur hann áherslu á markmiðasetningar, árangur og lífið sjálft og hvetur nemendur til að láta drauma sína rætast með því að bera ábyrgð á eigin lífi, setja sér markmið, hafa trú á sjálfum sér til að ná markmiðunum og skipuleggja sig í samræmi við það.

Þorgrímur fjallar einnig um mikilvægi þess að halda góðu jafnvægi milli einkalífs, atvinnu og tómstunda til þess að þroskast fallega og lifa björtu lífi. Þá hvatti hann nemendur til að sýna samkennd, bera virðingu fyrir öllum og hafa hugrekki til að fylgja hjartanu. Við erum öll einstök og eigum að njóta þess.

 
 

Hér erum við bjartsýn á að íþróttahúsið komist í notkun á næstu dögum og hægt verði að færa íþróttirnar undir þak í næstu viku en nánari skilaboð munu berast um það ef það tekst.

Myndirnar með fréttinni eru af hápunkti vikunnar á yngsta stigi en þau fengu nýja stóla í dag og brugðu aðeins á leik af því tilefni. 

 

 

Fyrsti mánuðurinn að baki í skólastarfi

Í Grunnskóla Önundarfjarðar er öllum tekið opnum örmum.
Í Grunnskóla Önundarfjarðar er öllum tekið opnum örmum.
1 af 11

Heil og sæl

Hér koma fréttir af starfinu í Grunnskóla Önundarfjarðar þegar fyrsti mánuðurinn er að baki. Það er ýmislegt sem hefur áorkast og sjást þess glögg merki að hér er lifandi skólastarf í gangi. Verkefni nemenda skreyta ganga skólans og má þar fyrst nefna opinn faðm sem mætir gestum en það er mælingverkefni frá síðasta vori sem fengið hefur að hanga uppi. Þegar upp á efri hæðina er komið blasir við þetta flotta tré sem nemendur unglingastgs hafa málað á vegginn og er nú tilbúið til notkunar við ýmsa orðavinnu.  Ýmislegt er einnig unnið, ritað og lesið sem ekki sést uppi á veggjum. 

Á haustdögum fóru nemendur í gönguferðir, þau yngri út í skóg en eldrri nemendur gengu frá Botnsheiðar afleggjara niður að gangnamunna í Breiðadal. Veðrið lék ekki við okkur þennan daginn en við fórum nú samt sem áður og gekk allt vel. 

Á miðvikudaginn fengum við heimsókn frá Páli Halldóri sem ferðast um með veltibílinn. Allir nemendur og einhverjir starfsmenn prófuðu og fannst upplifunin merkileg og dálítið spennandi og fundu fyrir því hvernig beltin bjarga. Þennan sama dag fóru svo miðstigsnemendurnir á Suðureyri til að hitta fulltrúa frá Stofnun Árna Magnússonar sem færðu okkur verkefnið Handritin til barnanna. 

Núna þessa dagana er þemaverkefni í gangi hjá yngsta stiginu þar sem þau eru að læra ýmislegt um Önundarfjörð, verkefnið teygir sig einnig upp á mið og unglinastig en þau taka allan Vestfjarðakjálkann fyrir. Í tengslum við þetta verkefni er ýmis fríðleikur kominn upp á veggi. 

Myndir segja svo miklu meria en orðin svo ég læt hér fylgja myndasafn og einnig er hægt að skoða myndasöfn tengd ákveðnum dögum eða þemum hér á síðunni. 

 

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar haustið 2020 fer fram í sal skólans mánudaginn 24. ágúst kl. 10:00. Að lokinni örstuttri setningarathöfn fara nemendur og foreldrar á fund með umsjónarkennara. Einnig verður boðið upp á einstaklingsviðtöl fyrir þá sem þess óska. 

Við förum full tilhlökkunar inn í nýtt skólaár. 

Starfsmannamál á komandi hausti

Heil og sæl

Hér koma upplýsingar um starfsmannamál á komandi hausti. Á hverju vori eru auglýstar þær stöður sem leiðbeinendur hafa sinnt í stað kennara. Að þessu sinni bárust nokkuð margar umsóknir. Í Grunnskólanum munu Jóna Lára og Sigurður Hafberg kenna áfram en í kennarahópinn bætist Erla Sigrún Einarsdóttir. Þau eru öll með leyfisbréf. Í leikskólanum bætist Lisa Haye við hópinn í byrjun ágúst og verða Hanna Maggý, Joanna, Katarzyna, Sólveig María og Grazyna þar áfram starfandi. Júlía Ósk kemur svo aftur til starfa á leikskólanum í nóvember. Við horfum bjartsýn til haustsins og kveðjum þá starsmenn sem láta af störfum með þökkum um leið og við bjóðum nýja starfsmenn velkomna. 

Skólaslit á morgun 4. júní

Á morgun fimmtudaginn 4. júní verður Grunnskóla Önundarfjarðar slitið við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans. Verk nemenda verða til sýnis í anddyri og stigagangi og unglingadeildin mun sýna lokaverkefni sín sem unnið hefur verið að undanfarnar tvær vikur. Einnig verður boðið upp á tónlistaratriði og verður gestum boðið kaffi og kaka að lokinni dagskrá. Við minnum á tveggja metra regluna sem gott er að hafa í huga og virða við þá sem það kjósa. 

 

Nú sígur á seinni hlutann af skólaári grunnskólans

Útieldun í upphafi skólaárs
Útieldun í upphafi skólaárs

Hér koma upplýsingar um síðustu skóladaga þessa skólaárs:

Yngri nemendurnir eru eins og áður hefur komið fram í útinámi þessar síðustu vikur skólaársins. Hafa þau margt aðhafst, verið að læra um fugla fjarðarins, mælt ýmsar vegalengdir, eldað og bakað við opinn eld, búið til flautur og vindhörpur, síað vatn svo það verði drykkjarhæft og svona mætti lengi telja. Næstu verkefni hjá þeim eru útilistaverk með stærðfræði ívafi og að setja niður í gróðurkassana. 

Unglingarnir eru að vinna að lokaverkefni sem tengist áhugasviði hvers og eins þeirra. Hafist var handa í upphafi síðustu viku og er áætlaður lokadagur fimmtudagur 28. maí. Verkefnin eru fjölbreytt og reyna á sjálfstæð vinnubrögð og aðra lykilhæfni. Ferlið gengur vel og er spennandi að fylgjast með. Einnig verður gaman að sjá þegar lokaafurðin lítur loks dagsins ljós eftir alla vinnuna. 

Á föstudaginn verður sameiginlegur dagur leik og grunnskóla þar sem farið verður í sólargöngu og síðan leikið á leikskólalóðinni uns deginum lýkur með grillveislu. 

Á þriðjudaginn í næstu viku verður svo farin vorferð eins og vant er. Að þessu sinni skiptist hópurinn í tvennt þar sem ákveðið var að unglingarnir fengju að gista eina nótt vegna þess að eiginlegt skólaferðalag þeirra frestast um eitt ár. Fara þeir í Heydal og dvelja þar í sumarbúsatð og njóta afþreyingar sem boðið er upp á þar. Ferð yngri nemendanna, skóalhóps, yngsta stigs og miðstigs, verður óvissuferð en upplýsingar um hvað þurfi meðferðist ,,í raun og veru" munu berast foreldrum tímanlega. 

Miðvikudagurinn 3.júní er svo starfsdagur í grunnskólanum og  fimmtudaginn 4. júní mæta nemendur og foreldrar til skólaslita sem verða við hátíðlega athöfn. Fjórir nemendur hafa lokið grunnskólagöngu sinni og verða útskrifaðir. Uppstilling mun gefa þeim sem það kjósa möguleika á að halda tveggja metra reglunni. 

 

11. maí - skólahald með eðlilegum hætti

Nú er það orðið ljóst að við fáum að fylgja þeim reglum sem gilda annarsstaðar á landinu hvað varðar samkomubann frá og með mánudeginum 11. maí. Hópar mega telja 50 manns, og tveggja metra reglan er ekki lengur í gildi hvað börn varðar. 

Skólahald færist þá í eðlilegt horf.

Grunnskólinn: Kennarar fara þá á milli hópa svo kennsla getur verið samkvæmt stundaskrá þar sem það á við en hefð er fyrir því að brjóta stundaskrána talsvert upp í maí. Nemendur taka sér göngu í hádeginu og borða í Gunnukaffi.  Kennarar sem koma utanað fá að koma til okkar aftur svo við getum haldið áfram með hönnun og smíði, dans og tónlist. Ninna námsráðgjafi og Helena skólahjúkrunarfræðingur munu láta sjá sig fljótlega. 

Leikskólinn: Kennarar mega aftur fara á milli hópa svo það hópastarfs skipulag sem hófst fyrr á árinu getur haldið áfram, eins og í grunnskólanum er starfið í leikskólanu brotið upp á vorin með aukinni útiveru, Nemedahópar mega blandast og foreldrar mega fylgja börnum sínum  inn í fataklefann. 

Þetta verður allt léttara með þessum tilslökunum en við megum samt ekki sofna á verðinum. Áfram er tveggja metra regla í gildi á milli fullorðinna. Við höldum áfram handþvotti og sprittnotkun. Þeir sem finna fyrir flensulíkum einkennum ættu að vera heima uns þeir hafa fengið úr því skorið hvort þeir ættu að fara í sýnatöku. 

Nemendur, foreldrar og starfsfólk hafa staðið sig eins og hetjur í að aðlagast þessum aðstæðum sem hafa verið uppi undanfarið og eiga allir hrós skilið. 

Bestu kveðjur

Sunna

 

Útiskóli

Þessa vikuna hafa nemendur á yngsta- og miðstigi verið með útiskóla. 

Við höfum m.a.

- Notað sprek og greinar í stærðfræði - mælingar og form

- Farið út og unnið verkefni um fuglana, vorið og trén í nágrenninu

- tálgað í tré

- Náð í safa úr birkitré sem smakkaðist bara mjög vel

- dansað úti

- búið til bál og eldað snúbrauð/snobrød þrátt fyrir rok og rigningu :) 

Læt myndir fylgja með

Góða helgi :)

 

Breytingar á skólahaldi í áttina að því sem við erum vön

Mánudaginn 27. apríl verða þær breytingar hér á Flateyri að við megum opna leik og grunnskóla að nýju en þó með þeim takmörkunum sem voru fyrir páskafrí. Starfið verður með mjög svipuðu sniði og þá var. 

Mánudaginn 4. maí verða svo gerðar meiri tilskakanir á samkomubanninu og mun þá skólahaldið verða með nokkuð eðlilegum hætti. Við höldum áfram að gæta fyllsta hreinlætis og sóttvarna en megum öll vinna saman eins og áður var. Heimsóknir utanaðkomandi verða ekki heimilar að svo stöddu.

Hér er hlekkur frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu um skóla-, frístunda- og íþróttastarf barna og ungmenna eftir 4. maí.

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/04/21/Skola-fristunda-og-ithrottastarf-barna-og-ungmenna-eftir-4.-mai-/

Og hér er annar hlekkur með auglýsing heilbrigðisráðuneytisins vegna tilslakana á samkomubanni.

https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=ab3485b5-a616-48bd-8db2-476a28fb45ce

 

Hér er svo linkur sem áhugavert getur verið að skoða, með spurningum sem brunnið hafa á fólki og svörum við þeim,  hægt er að velja milli tungumála, ískensku, ensku og pólsku: 

https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/spurt-og-svarad-skolastarf-a-neydarstigi-almannavarna/

 

Bestu kveðjur og gleðilegt sumar

Sunna

Skólasálfræðingar

Þar sem ekki hefur verið hægt, vegna ástandsins í þjóðfélaginu, að veita sérfræðiaðstoð sálfræðinga sl. vikur þá hafa sálfræðingarnir okkar þær Sólveig Norðfjörð og Björg Norðfjörð ákveðið að opna fyrir ráðgjöf með símaviðtölum við nemendur, foreldra og kennara. Einnig ætla þær að hafa samband við þá foreldra sem bíða eftir niðurstöðum viðtala frá því í febrúar.

Þeir sem telja sig þurfa ráðgjöf er bent á að hafa samband við Sólveigu eða Björgu í gegnum tölvupóst: solveignordfjord@gmail.com  eða bjorg00@hotmail.com gefa upp nafn, símanúmer og jafnvel nafn barnsins ef það hefur verið í viðtölum hjá þeim. Þær munu síðan hafa samband við viðkomandi við fyrsta tækifæri.

Sálfræðingarnir sem starfa við leik- og  grunnskóla Ísafjarðarbæjar eru hluti af skólaþjónustu sveitarfélagsins og sinna allri almennri sálfræðivinnu við skólanna. Sálfræðingarnir vinna í nánu samstarfi við starfsfólk leik- og grunnskólanna og aðra þá sem koma að málefnum barna.