VALMYND ×

Fréttir

Áfram höldum við með öfluga námsdaga í G.Ö.

Kampakátir kennarar í vettvangsferð hjá Arctic fish
Kampakátir kennarar í vettvangsferð hjá Arctic fish
1 af 6

Þó ekki sé hlýtt nú í maí er ekki hægt að kvarta yfir veðrinu þar sem lognið leikur yfirleitt við okkur og sólin skín. Í dag fóru allir nemendur skólans ásamt kennurum til Þingeyrar í þeim tilgangi að kynnast fiskeldi Arctic fish í Dýrafirði.

Þegar heim var komið sögðu þau mér ferðastöguna. Keyrt var á einkabílum til Þingeyrar og þar niður á bryggju þar sem allir fóru í björgunarvesti áður en haldið var út á fjörð.  Benedikt fékk það hlutverk að leysa landfestar, lyfti reipinu af pollanum (þarna bættust nokkur safarík orð við fyrri orðaforða nemenda). Báturinn sem þau fóru um borð í heitir Arnarnes og var siglt út að laxeldiskvíunum. Signý beit ugga af laxi af því hana langaði að prófa eins og laxveiðimenn gera við sinn fyrsta lax.

Það var margt sem krökkunum fannst merkilegt í þessari ferð og hafa þau greinilega verið áhugasöm. Meðal þess sem þau sögðu mér var að það séu 3 milljónir laxa í kvíunum í Dýrafirði. Þeim fannst mjög fyndið að sjá laxinn stökkva. Þau fóru líka út á prammann. Og þeim fannst mjög áhugavert að sjá allan tæknibúnaðinn sem er í Blábankanum, t.d. myndavél sem sýnir laxinn í sjónum, hvernig hægt er að fylgjast með hitastigi og súrefninu og mörgu fleiru þaðan. Hvernig maturinn fer í gegnum rör og dreifist með dreifara sem snýst. Þau sögðu mér líka að maturinn væri búinn til úr fiskiafurðum. Ég vildi að ég hefði komist með í þessa ferð því það er svo augljóst að þó maður fái greinargóða lýsingu þá er mun auðveldara að læra hlutina með því að vera á staðnum. Það er óvíst að ég fari rétt með allt sem mér var sagt en krakkarnir eiga eftir að búa lengi að þessum fróðleik. 

Önnur viðfangsefni vikunnar voru fjallahringur Önundarfjarðar sem er í vinnslu á yngsta- og miðstigi. Greinaskrif vegna skólablaðs þar sem allir nemendur leggja eitthvað til. Unglingastigið brá sér á kajak einn góðviðrisdaginn. 

Í næstu viku fara unglingarnir í skólaferðalag um Ísland. Yngri nemendurnir fá heimsókn frá starfsmönnum umboðsmanns barna, fara í sauðburð, á kajak, skoða æðarvarp og annað fuglalíf. Já þau eru ótalmörg tækifærin sem felast í fámenninu og gera okkur auðvelt fyrir í að standast kröfur um fjölbreytt skólastarf.

Bestu kveðjur og góða helgi

Fyrsta maívikan að baki-

Fyrir utan vatnsþróna
Fyrir utan vatnsþróna
1 af 5

Í þessari viku var farið í tvær vettvangsferðir og var það vatnið sem var þemaefni vikunnar. Fyrri ferðin var til að skoða vatnsþróna sem er í hlíðinni rétt utan við þorpið. Þar fengum við góðan fróðleik um hvaðan vatnið kemur, hversu mikið rennsli er inn í þróna og hversu mikil notkun bæjarbúa er að meðaltali, hvernig vatnið síast og hvernig örverum er eytt úr því. Nemendur voru duglegir að spyrja spurninga og á staðnum var ákveðið að næst yrðum við að fá að vita hvernig við fáum heitt vatn á eyrina. Þegar heim var komið var því hringt í Kidda Valda og hann fenginn til að fræða okkur um Orkubú Vestfjarða. Sú ferð var ekki síður fróðleg og nemendur og starfsfólk margs vísara.

Á heimleiðinni frá vatnsþrónni var gengið í fjörunni og haldið áfram að fræðast. Meðal þess sem við sáum var hringlaga gat inn í klett og datt okkur helst í hug að þarna væri um trjáholu að ræða eftir liggjandi tré. Myndir voru sendar til Náttúrufræðistofnun til að fá svör við því. Svörin voru svo kynnt fyrir nemendum á föstudaginn og var grunurinn um trjáholu staðfestur og að þarna hefði verið þokkalega stórt tré fyrir allt að 15 milljónum ára. Þar sem þetta eru fyrstu upplýsingarnar um trjáholur við Önundarfjörð vorum við beðin um að senda nánari upplýsingar um staðsetningu og gera mælingar á holunni. Þar með fengum við hugmynd að rannsóknarferð í næstu viku þar sem við munum grandskoða umhverfið. Bæði nemendur og starfsmenn mjög spenntir fyrir þessu. 

Annað sem rak á fjöru okkar var brot úr legsteini sem lá í vegkanti. Við eftirgrennslan komumst við að því að lesgsteinninn væri sennilega úr kirkjugarðinum í Hnífsdal og vakti það forvitni okkar hvernig hann gæti hafa endað á Flateyri. Fyrirspurn þess efnis var send á Ísafjarðarbæ og bíðum við svara.

Milli þess sem stelpurnar á unglingastiginu taka þátt í vettvangsverkefnum vinna þær ötullega að gerð skólablaðsins og hafa farið í fyrirtæki á Flateyri til að safna styrkjum í formi auglýsinga eða styrktarlína.

Nokkrar mikilvægar dagsetningar

Nokkrar mikilvægar dagsetningar:
 
 
10. maí starfsmannafundur í leikskóla - opnað kl. 10
 
13. maí uppstigningardagur- frídagur
 
24. maí annar í Hvítasunnu- frídagur
 
4. júní skólaslit grunnskóla
 
2. júli sumarlokun leikskóla hefst- lokað kl. 15:00
 
9. ágúst sumarlokun leikskóla lýkur- opnað kl. 9:00
 
23. ágúst skólasetning grunnskóla

Fréttir af skólastarfi- apríl að baki

Heil og sæl 

Meðal þess sem hefur verið í gangi hjá okkur í apríl er lestrarsprettur sem allir nemendur skólans taka þátt í. Hver og einn les í 20 mínútur heima og aðrar 20 mínútur í skólanum og er stefnan að safna upp í 10.000 mínútur. Umræður eru um bækur og höfunda og markmiðið að stuðla að lestraránægju sem leiði síðan af sér aukna lesfimi og lesskilning. 

Í síðustu viku fengu nemendur mið- og unglingastigs fræðslu í boði Vá Vest hópsins. Um var að ræða forvarnarfyrlestra sem  Magnúsar Stefánssonar sá um. Vegna aðstæðna var fræðslan í fjarfundi. Fundurinn með unglingunum var forvörn gegn vímuefnum og miðstigsnemendur fengu fyrirlestra um það sem ber að varast á netinu, einelti, samskipti barna og fleira.
Fyrirlestrar fyrir foreldra um sama efni voru haldnir um kvöld, einnig í fjarfundi. 

Forsáning er í fullum gangi innandyra og verða plöntur færðar út í beðin á skólalóðinni og settar niður kartöflur þegar við erum orðin nokkuð viss um að vorið sé komið. Við erum reyndar svo mikið fyrir allskonar tilraunir að við prófuðum til samanburðar að setja fræ beint út á sama tíma og við forsáðum því sem fær að þroskast inni. 

Nú hyllir undir það að umglingastigið komist í skólaferðalag og þar sem ekki verður af ferð út fyrir landssteinana var tekin ákvörðun um að fara hringveginn um Ísland. Eru nemendur að vinna að metnaðarfullu ferðaskipulagi þar sem á að skoða ýmislegt sem Ísland hefur upp á að bjóða. Hópurinn samanstendur af sjö ungmennum þar sem engin ferð var farin í fyrra og nemendur sem útskrifuðust þá frestuðu sinni ferð um ár. Þar sem eitthvað vantar upp á sjóðinn svo hægt sé að gera allt sem hugurinn girnist var ákveðið að ráðast í að gera skólablað og er það aldeilis eitthvað í reynslubankann. 

Það er ekkert óhefðbundið við það að sjá yngri nemendur skólans við hin ýmsu verkefni utandyra en með hækkandi sól og hlýrra veðri munum við verða mikið úti við námið á öllum stigum. 

Bestu kveðjur og góða helgi

Sunna
 

Skólahald hefst á morgun þriðjudag 6. apríl

Heil og sæl 

Ný sóttvarnarreglugerð frá heilbrigðisráðherra tók gildi 1. apríl og gildir til og með 15. apríl. 

Með tilliti til hennar getum við haldið skólastarfi í leik- og grunnskóla með svipuðu sniði og við erum vön.

Undantekning er þó að nemendur á unglingastigi geta ekki sótt tíma á Ísafirði fram til 15. apríl og mæta því hér í skólann á morgun og næsta þriðjudag. 

Hér eru helstu punktar um gildandi sóttvarnir í leik og grunnskóla: 

Leikskólar

  • Engin fjölda- eða nálægðartakmörkun gildir um börn á leikskólaaldri.
  • Hámarksfjöldi fullorðinna er 20 manns í rými, en starfsmenn mega fara milli rýma.
  • Starfsfólk skal virða 2 metra fjarlægðarreglu sín á milli en nota grímu ella.
  • Viðburðir eru heimilir í skólastarfinu með þátttöku nemenda og starfsfólks en engum utanaðkomandi.
  • Foreldrar og aðstandendur skulu ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til og skulu þá nota andlitsgrímu.

Grunnskólar

  • Nemendur eru undanþegnir nálægðartakmörkun og grímuskyldu.
  • Hámarksfjöldi starfsmanna er 20 manns í rými og þeir mega fara milli rýma.
  • Starfsfólk skal virða 2 metra fjarlægðarreglu sín á milli og gagnvart nemendum en nota grímu ella.
  • Viðburðir eru heimilir í skólastarfinu með þátttöku nemenda og starfsfólks en engum utanaðkomandi.
  • Hámarksfjöldi nemenda í rými er 50 og blöndun milli hópa innan sama skóla er heimil.

Bestu kveðjur

Sunna

Árshátiðarupptaka að baki- ekkert skólahald fyrr en eftir páskafrí

Það var þreyttur leikakrahópur sem tók lagið í lok leiksýningar sem fór fram fyrir framan myndvél í tómum sal.
Það var þreyttur leikakrahópur sem tók lagið í lok leiksýningar sem fór fram fyrir framan myndvél í tómum sal.

Heil og sæl

Fréttir dagsins voru mikil vonbrigði þegar við héldum eða vonuðum allavega að allt færi að ganga í rétta átt í baráttunni við covid. Það tók samt ekki langan tíma að taka ákvörðun um að klára árshátíðina, sem við höffðum hlakkað mikið til að halda,  áður en skólahald yrði bannað um miðnætti. Haft var samband við Margeir Haraldsson sem var tilbúinn að koma og taka leikþáttinn upp í kvöld og síðan var haft samband við alla foreldra og tóku allir mjög vel í þetta. Krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði eins og við höfðum vænst. Það var samt þreyttur hópur sem yfirgaf Samkomuhúsið þegar klukkan var langt gengin í ellefu en þá var upptökum lokið og allir höfðu fengið súpu og kökur áður en heim var haldið. 

Þegar klippingu verður lokið fáið þið að sjá afraksturinn af þessu skemmtilega leikriti sem byggir á ævintýrinu um Mjallhvíti og dvergana sjö. Handritið sömdu unglingarnir þrír og sáu einnig um utanumhald sýningarinnar með dyggum stuðningi starfsfólks. Þess má geta að við gerð leikmyndar og búninga var ákveðið að vinna samkvæmt Heimsmarkmiði nr. 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og var því pappír og fleira endurnýtt við gerð leikmyndarinnar og búnirngar voru úr geymslu skólans og gátum við okkur þess til að húfur dverganna hafi upphaflega verið jólasveinahúfur notaðar að árgangi 1959.  Allir nemendur höfðu hlutverk í sýningunni og fleiri þurfit til en slíku redda starfsmenn G.Ö. með glöðu geði. Ég læt ekki of margar myndir fylgja þessari frétt þar sem skemmtilegra er að halda spennunni. 

Allt skólahald fellur niður á morgun og föstudaginn og síðan tekur hið hefðbundna páskafrí við. Vonandi verður svo allt komið í samt lag þriðjudaginn 6. apríl og við getum byrjað með eðlilegum hætti. Nánari upplýsingar um það berast eftir 1. apríl. 

Bestu kveðjur og gleðilega páska

Sunna

 

 

Árshátíð Grunnskóla Önundarfjarðar-

 
 
Árshátíð Grunnskóla Önundarfjarðar verður haldin fimmtudaginn 25. mars 2021. Til að geta raðað niður í sæti og gætt fjarlægðar vil ég biðja foreldra og forráðamenn að senda mér nöfn þeirra aðstandenda sem koma  á netfangið kristbjorgre@isafjordur.is sem allra fyrst og í síðasta lagi fyrir kl. 12:00 á morgun, miðvikudag. 
 
Árshátíðin verður haldin í Samkomuhúsinu og hefstr sýningin klukkan 18:00. Sæti verða merkt og verða gestir að sitja í því sæti sem þeim er úthlutað. Foreldrafélagið mun útbúa lítinn nestispoka sem afhentur er með aðgöngumiða þar sem ekki er hægt að hafa hið glæsilega hlaðborð að þessu sinni. 
 
Að lokinni sýningu fá leikararnir súpu og síðan verður haldið Sílaball fyrir alla Flateyringa á grunnskólaaldri. Nemendur 1.- 6. bekkjar fara heim klukkan 21:00 en unglingarnir skemmta sér áfram til kl 22:30. 
 
 
Aðgangseyri er 1500 kr. fyrir 16 ára og eldri. Frítt fyrir börn á grunn- og leikskólaaldri. 
 
Leikskólabörnum er boðið á generalprufu sem fer fram eftir hádegi á fimmtudaginn. 
 
 
Allir gestir þurfa að nota andlitsgrímur.
 
Við erum ólýsanlega glöð yfir því að geta haldið árshátíð þetta árið og hlökkum til að sjá ykkur :) 
 
Bestu kveðjur
Sunna
 

Árshátíð Grunnskóla Önundarfjarðar-Sílaball

1 af 3

Undirbúningur árshátíðarinnar er nú í fullum gangi og verður skólatíma þessa vikuna varið í æfingar, gerð leikmyndar og búninga og annan tilfallandi undirbúnig. 

Sýning verður svo í Samkomuhúsinu, fimmtudaginn 25. mars klukkna 18:00 og í framhaldinu ætlum við að skemmta okkur aðeins á Sílaballi. 

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag sýningarinnar, skráningu gesta og fleira verða sendar eftir helgina. 

Nemendur unglingastigs hafa samið handrit eftir sögunni um Mjallhvít og dvergana sjö og rýnt í söguna með gagnrýnum augum. Yngri nemendur hafa samið dansa sem falla inn í sýninguna. 

Útkomuna verður skemmtilegt að sjá. 

Fyrirtækja heimsóknir

Mér finnst rigningin góð :)
Mér finnst rigningin góð :)
1 af 10

Að þekkja sitt samfélag er öllum mikilvægt og er í Aðalnámskrá grunnskóla gerð grein fyrir þessum mikilvæga þætti í námi.  Ein leiðin sem við förum í skólastarfinu er að heimsækja þau fyrirtæki sem eru í þorpinu eða tengjast því á einhvern hátt. Með vettvangsheimsókn og fróðleik frá þeim sem starfa við fyrirtækin verður námið merkingarbærara.

Okkar fyrsta heimsókn þetta skólaárið var til Vestfisks á Flateyri sem nýlega hefur hafði framleiðslu á gæludýrafóður úr afurðum sem falla til við sjávarútveg og landbúnað og væru jafnvel ekki nýttar á annan hátt. Meðal hráefnis er roð, bein, rækjuskel  og horn. Ýmsar skemmtilegar vörur eru framleiddar úr þessu hráefni og tala meðfylgjandi myndir sínu máli þar um. Nemendur og starfsmenn hlustuðu af athygli og fengum við að smakka eina afurðina sem var eins og snakk úr rækjuskel. Við erum að vinna út frá Heimsmarkmiði nr 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu og var þessi heimsókn svo sannralega í anda þess markmiðs. 

Eftir páskana munum við halda áfram að heimsækja fyrirtæki og fræðast um starfsemi þeirra. 

 

Leiklistarmorgnar í G.Ö.

Þessa viku hafa allir dagar hafist á leiklistaræfingum sem kemur sér vel í aðdraganda árshátíðarvikunnar. Steinunn Ása sem hefur verið í vettvangsnámi hjá okkur í tvær vikur hefur stjórnað ýmsum æfingum sem reyna á hlustun, rýmisgreind, einbeitingu, líkamsbeitingu, samvinnu, traust og framkomu. 

Krakkarnir hafa lært að vinna út frá spuna, í byjun því sem kallað er frostspuni og síðan að búa til sinn karakter út frá búningi og að lokum að lesa handrit og setja síðan upp spunaþátt sem byggir á handritinu. 

Það var virkilega gaman að fylgjast með þessari vinnu og heyra hljóðið í nemendum í lokin þar sem þeir voru almennt mjög ánægðir. 

Meðfylgjandi myndir segja svo meira en mörg orð.