VALMYND ×

Fréttir

Lestur, leikgleði og lestrarhvetjandi umhverfi

1 af 12

Ég hef sett mér það markmið að kynna betur það góða starf sem á sér stað í skólanum okkar. 

Jákvæð kynning á skólastarfi eflir stoltið, styrkir ímynd skólans og eykur þátttöku samfélagsins. Hún byggir upp sjálfstraust nemenda og kennara og hvetur til nýsköpunar og þróunar í starfi.

Kynning á skólastarfinu #1

Í Grunnskóla Önundarfjarðar leggjum við mikla áherslu á að skapa umhverfi sem hvetur til lesturs. Eitt af því sem hefur aukið lestrargleði hjá okkar nemendum er lestrarátakið okkar góða sem hefur gengið mjög vel og erum við afar stolt af því framtaki. Heimalestrarormurinn lengist stöðugt og nemendur almennt kappsamir við að klára bingóspjöldin sín innan vikunnar. Það er frábært að fylgjast með framförum hjá nemendunum og einnig hvað samstarfið við foreldra gengur vel þegar kemur að heimalestrinum.

Þegar þú kemur í heimsókn í Grunnskóla Önundarfjarðar sérðu m.a.:

Sýnilegar bækur – Bækur eru alls staðar í skólanum, ekki bara á bókasafninu! Nemendur hafa frjálsan aðgang að fjölbreyttu úrvali bóka í skólastofum, göngum og lestrarkrókum. Einu sinni í mánuði eru sóttar nýjar bækur á bókasafnið á Ísafirði til að hafa sem fjölbreyttast úrval bóka.

Notaleg lestrarrými – Við höfum útbúið þægileg rými með sófum, púðum og góðri lýsingu þar sem börnin geta lesið í ró og næði. Hús úr pappakössum og vasaljós eru líka vinsæl.

Lestur í öllum fögum – Lestur er ekki bara í íslenskutímunum! Við lesum í stærðfræði, náttúrufræði, ensku, dönsku  og um allan skólann.

Leikgleði - Við leggjum áherslu á skapandi leik sem stuðlar að félagsþroska, sjálfstrausti og vellíðan nemenda. Nemendur hafa m.a. greiðan aðgang að kubbum, búningum, perlum, búðardóti o.fl.

Þetta er ekki tæmandi listi en myndir segja meira en þúsund orð og svo eru þið velkomin í heimsókn :)

 

 

Lestrarátak í byrjun skólaárs

Í Grunnskóla Önundarfjarðar hefur nú hafist spennandi lestrarátak sem stendur yfir næstu fimm vikurnar. Markmið átaksins er að efla lestrarfærni og lestrargleði á sama tíma.

Hvernig virkar lestrarátakið?

Lestrardagbók: Kláraðar bækur eru skráðar í bókadagbók. Eins og staðan er í dag þá hafa nemendur lesið 32 bækur og 1690 blaðsíður (þær bækur sem búið er að skrá) og þeim fjölgar á meðan að ég skrifa þennan texta. Þetta er aðeins upphafið og búist er við að þessi tala hækki á ógnarhraða á næstu dögum.

Lestrarbingó: Allir nemendur hafa fengið bingóspjald. Fyrir eina fullkláraða línu fá nemendur óvæntan glaðning og fyrir fullt spjald fá þeir einn valtíma.

Heimalestrarmiðar: Nemendur skrá á lestrarmiða fyrir hvern dag sem þeir lesa heima. Lestrarmiðarnir eru hluti af skemmtilegu verkefni þar sem við erum að safna í heimalestrarorminn okkar í skólanum!

Þegar lestrarátakinu lýkur þann 14. febrúar verður uppskeruhátíð þar sem nemendur hafa valið að hátíðin verði tengd almennum kósýheitum – kvikmynd, yndislestur, góðgæti, spil, teppi, bangsar og koddar.

Þetta er sameiginlegt átak heimili og skóla og erum við afar ánægð með að þátttaka hafi verið frábær strax frá fyrsta degi. Hérna í skólanum sé ég áhuga, metnað og mikla kappsemi og gaman að sjá nemendur lesa í hverju hornu og ræða lestur sín á milli.

Við hlökkum til að fylgjast með framhaldinu!

 

 

 

 

 

Desemberpóstur

Sæl öll

 

Nú er lítið eftir af þessu ári og jólafríið á næsta leiti.

 

Við höfum átt frábæra viku sem byrjaði á því að við fórum út í skóg og sóttum okkur jólatré. Við áttum notalega stund og fengum kakó og smákökur. Jólatréð stendur nú upplýst við skautasvellið og mun gleðja okkur yfir jól og áramót. Verður yndislegt að koma og skauta yfir hátíðarnar.

Við höfum brasað ýmislegt í desember og fengið til okkar góða gesti.

Lýðskólinn var með sína árlegu samfélagsviku og erum við svo heppinn að vera partur af henni. Nemendur Lýðskólans komu til okkar og voru með jólaföndur og daginn eftir var piparkökubakstur á Gunnukaffi. Notalegar stundir og ómetanlegar minningar.

Við fórum á Bryggjukaffi og fengum okkur heitt kakó með rjóma. Alltaf mikil gleði að koma og hitta Sunnu "skólastjóra". Notaleg stund með spilum og jólakósý. 

Jólakortagerð er fastu liður í desember og að þessu sinni skrifuðu nemendur jólakort til nokkurra einstaklinga á Flateyri sem við síðan bárum í hús. Yndislegt að labba eyrina og sjá öll fallegu jólaljósin. 

Nemendur bjuggu til sín eigin piparkökuhús og sýndu nemendur mikinn metnað, þolinmæði og gleði við sína vinnu. Þau hönnuðu sín eigin hús sem þau áttu að mæla, teikna upp og búa til skapalón.

Í dag voru nemendur á mið- og elsta stigi með kynningu og stóðu sig mjög vel. Verkefnið fékk titilinn ég læri-ég kenni og áttu nemendiur að velja sér viðfangsefni innan kafla er varðar hlýnun jarðar. Eftir kynninguna voru nemendur með jafningjamat. Þau vönduðu sig mikið og tóku verkefninu alvarlega.

Á morgun eru svo litlu jólin sem við ætlum að njóta með leikskólanum og endum við í jólamat á Gunnukaffi.

Kennsla hefst að nýju mánudaginn 6. janúar klukkan 08:10.

 

Með þessum jólapósti óskum við ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

 

Kaffihúsakvöld 5. desember

Kaffihúsakvöld grunnskólans verður á morgun fimmtudaginn 5. desember klukkan 17:00. Nemendurnir eru búnir að undirbúa dagskrá fyrir kvöldið og ætlum við að fá hjálp frá ykkur við að búa til jólasveina sem við ætlum að hengja upp í skólanum. Nemendurnir hafa allir valið sér einn jólasvein sem þau gerðu skissu af og vonumst við til að geta klárað allavegana nokkra af þeim á morgun.
Einnig verðum við með skákborðin tilbúin og væri gaman að geta tekið nokkrar skákir.

Það kostar 1500 krónur inn en frítt fyrir 15 ára og yngri.

Hlökkum til að sjá ykkur

Fréttir af skólastarfi vikuna 11. – 15. nóvember.

1 af 4

Eins og flestir vita var vatnsleysi á Flateyri í vikunni og skólinn auðvitað engin undantekning þar á. Vatnsleysið gaf okkur m.a. tækifæri til að ræða mikilvægi vatns og hversu háð við erum því í daglegu lífi. Sérstaklega var rætt um vatnsnotkun tengda klósettferðum og hversu ómissandi hreint vatn er í því samhengi. Nemendur tóku þessu vatnsleysi með miklu jafnaðargeði en hugsanlega hafa þau aldrei verið jafn þyrst og þar sem skólastjórinn býr á Ísafirði fengu þau hreint og ferskt ísfirskt vatn að drekka. Sumir töldu sig finna bragðmun sem við munum rannsaka við tækifæri þegar að vatnið á Flateyri er komið í lag.

Annað sem við tökum okkur fyrir hendur fyrir utan almenna kennslu er t.d. skákkennsla en nemendur eru allir með amk. einn fastan skáktíma á viku í töflu. Nemendur læra grunnatriði skákarinnar og fá að æfa sig og keppa við hvert annað. Skák eflir m.a. einbeitingu, þjálfar rökhugsun og félagsfærni. Skákkennsla er einnig frábær leið til að styrkja þolinmæði og sjálfstæða hugsun, svo eitthvað sé nefnt.

Í fámennum skóla skiptir máli að þjálfa samvinnu og félagsfærni þar sem að nemendur vinna oft saman í fjölbreyttum hópum þvert á aldur og getu. Í litlum hópum hefur hver einstaklingur áhrif á heildina og hvetur þessi þjálfun til ábyrgðar, trausts og samheldni. Auk þess undirbýr þetta nemendur fyrir lífið í fámennu samfélagi, þar sem samstarf og samskipti eru mikilvæg. Slík þjálfun styrkir skólabraginn og skólasamfélagið í heild. Við nýtum m.a. félagsfærnispilið sem og fjölbreytta samvinnu- og samskiptaleiki.

Áhugasvið nemenda í GÖ eru fjölbreytt og leggjum við áherslu á að efla þau jafnt í námi sem og í frjálsum tíma. Nemendur hafa m.a. aðgang að hljóðfærum í tónlistarstofunni til að æfa sig, prjóna þegar að það á við, hnoðast undir leiðsögn, velja sér bækur útfrá áhuga og nýta verkmenntastofuna til fjölbreyttra verka.

Þessa stundina taka nokkrir nemendur þátt í uppsetningu leikritsins Blái hnötturinn á vegum Leikfélags Flateyrar og hvetjum við öll til að gera sér ferð á sýningu.

Baráttudagur gegn einelti

Jæja, skólastjóralífið gengur bara mjög vel og komin rútína á skólavikuna. Skákkennslan vekur mikla lukku og mikill metnaður hjá nemendum. Ég er ekki frá því að við förum að finna skákmót fyrir þessa skákmeistara. 
Við fengum heimsókn frá lögreglunni sem ræddi við 1. - 4. bekk um umferðina hjálmanotkun og umferðarreglur og 5. - 8. bekk um útivistartíma, rafhlaupahjól, ofbeldi, samfélagsmiðla og áföll. Frábært að fá lögregluna í heimsókn og fengu krakkarnir hrós fyrir áhugasemi og hversu vel þau hlustuðu.

Í tilefni af baráttudegi gegn einelti unnum við verkefni tengt gildunum okkar.

Virðing - Gleði - Ábyrgð - Metnaður

Við byrjuðum daginn á að horfa á myndband sem gert var fyrir baráttudag gegn einelti.

Við ræddum um gildin okkar og hvað þau þýða. Við vorum sammála um að þau lýstu því sem skiptir okkur máli í lífinu,  hvernig við viljum koma fram við aðra og hvernig samskipti við viljum eiga.

Afurð verkefnisins er veggmynd sem allir tóku þátt í að búa til og sýnir fjölbreytileikann í skólasamfélaginu okkar. Veggmyndin sem mun hanga í anddyrinu hjá okkur á að tákna það að við erum öll í sama liði. 

Nemendur sýndu verkefninu mikinn áhuga, tóku ábyrgð og sýndu mikinn metnað. Frábær dagur og skólastjórinn mjög stolt af öllu sínu fólki  

Jóna Lára

 

 

Hrekkjavökuhátíð

1 af 4

Í gær á Hrekkjavökunni héldu skólarnir á Suðureyrir, Flateyri og Þingeyri uppskeruhátíð. Við erum búin að vinna í þemaverkefni tengt Hrekkjavöku síðan í september. Nemendur voru búnir að gera  stuttmyndir, sögu, búninga og skreytingar fyrir hátíðina. Einnig voru þeir búnir að búa til allskonar bakkelsi sem boðið var upp á s.s. hrekkjavökumuffins, fingur, pylsubita í felum, kókóskúlur og popp. Stuttmyndir voru sýndar og dansað. Þetta heppnaðist mjög vel og allir skemmtu sér konunglega. 

Næsta verkefni okkar hefst síðan í nóvember en það er verkefnið Bókin mín. 

Samstarfsverkefni

Nemendur og kennarar eru á fullu í vinnu með hrekkjavökuþemað og er virkilega gaman að fylgjast með krafti þeirra og sköpun í þessu verkefni. Þemað er hluti af samstarfsverkefni okkar fámennu skólanna þar sem markmiðið er m.a. að efla teymiskennslu og samstarf skólanna.

Hérna fyrir neðan er hlekkur með nánari upplýsingum um verkefnið.

 Samstarfsverkefni

Verkefninu lýkur með hrekkjavökuskemmtun í Félagsheimilinu á Suðureyri þann 31. október. Nemendur verða allir í heima/skólagerðum búningum og hafa verið á fullu að skapa sína eigin búninga þar sem lögð er áhersla á endurnýtingu og sjálfbærni. Frábært að sjá samvinnuna, hugmyndaflugið og útsjónarsemina hjá þeim.

Við erum afar stolt af nemendum fyrir að taka þátt af áhuga og gleði og sjáum góðan árangur í vinnubrögðum þeirra og sköpun.

Að lokum er gaman að segja frá því að yngsta stigið er komið í 21. öldina og hefur fengið tússtöflu (í stað gömlu krítartöflunnar) og sjónvarp í stofuna sína. Elsta stigið og Viktor sáu um uppsetninguna að beiðni húsvarðar (Jónu). Aldeilis flott að vera með svona öflugt lið skólanum sem er tilbúið að ganga í öll verk.

Skólastarfið

1 af 4

Fjölbreytt og skemmtileg vika er á enda.
Á þriðjudaginn fengum við heimsókn frá kennurum frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Sú heimsókn er liður í Nordplus verkefni sem skólinn tekur þátt í. https://gron.isafjordur.is/skolinn/nordplus/

Þeir skoðuðu skólann og aðstæður til náms og kennslu bæði innan og utan dyra. Síðan var farið í göngutúr um bæinn þar sem gestirnir fræddust um ýmislegt tengt Flateyri. Þetta var frábær upplifun fyrir nemendur og kennara að fá að deila sínum venjum og umhverfi með erlendum gestum.

Sérstaka athygli vakti hjólabrautin sem þeir Kristján og Kamil hafa verið að hanna og búa til. Heilmikil vinna sem þeir hafa lagt í þetta verkefni og hvet ég alla til að gera sér ferð á hjólinu sínu, en brautin er staðsett fyrir neðan varnargarðinn bakvið Goðahól. Nemendur fá einnig tækifæri til að lagfæra og ditta að hjólunum sínum og var það eitt af verkefnum vikunnar.

Nemendum á yngsta stigi var boðið á sögulestur í leikskólanum í morgun, þar las Elfar Logi bókina sína: Matti litli - Sagan af drengnum með breiða nefið.

Nemendur á yngsta stigi unnu að sameiginlegri sögugerð í vikunni í samstarfi við nemendur á Suðureyri og Þingeyri. Á mið- og unglingastigi hefur handritagerð verið í fullum gangi í tengslum við hrekkjavökuþemað. Skemmtilegir hlutir eru að gerast í þessu verkefni, og við hlökkum til að sjá útkomuna.

Skólavinir - vinaliðaverkefni
Hérna í skólanum höfum við sett á fót verkefni sem við köllum Skólavinir. Fyrirmynd þessa verkefnis er frá verkefni sem heitir Vinaliðar en verkefnið hefur það að markmiði að stuðla að jákvæðri afþreyingu í frímínútum. https://gron.isafjordur.is/skolinn/skolavinir/ 

 

Góða helgi til ykkar

Fyrstu skólavikurnar

1 af 4

Fyrstu skólavikurnar hafa gengið vel og við höfum haft fjölbreytt verkefni í gangi.

Fyrstu vikuna eyddum við miklum tíma utandyra þar sem nemendur skoðuðu fjöruna, heimsóttu Sunnu á Bryggjukaffi, skoðuðu listaverk og fóru í berjamó. Við höfum verið að sanka að okkur timbri og höfum verið að vinna úr því síðustu vikurnar. Fengum m.a. góða sendingu frá Sighvati, garðyrkjufulltrúa Ísafjarðarbæjar, en hann var að grisja tré og runna hérna á Flateyri.

Þemað næstu vikurnar er hrekkjavaka þar sem nemendur munu læra um drauga og annað skemmtilegt tengt hátíðinni. Þau eru m.a. byrjuð að semja hryllilega tónlist fyrir hrekkjavökuhátíðina sem við áætlum að halda í lok október. Markmið verkefnisins eru að m.a. að þjálfa sjálfstæði, skapandi vinnubrögð, efla tungumálakunnáttu og styrkja samheldni í hópnum.

Þetta er liður í samþættu verkefni sem unnið er í samvinnu við Grunnskólana á Þingeyri og Suðureyri undir umsjón Ásgarðs skólaráðgjafar. Verkefninu er ætlað að þróa teymiskennslu þvert á skólana þrjá.

Í síðustu viku rannsökuðum við kóngasvarm (fiðrildið) og í þessari viku fengum við óvænt háf í skólann sem leiddi til skemmtilegs og lærdómsríks verkefnis.

Lestur hefur verið í brennidepli, og við hvetjum öll börn til heimalesturs til að efla lestrarfærni og ímyndunarafl

Með góðum kveðjum til ykkar allra

Jóna Lára